138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

kosning eins varamanns í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. í stað Evu Bjarnadóttur, fram að næsta aðalfundi, skv. 8. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið.

[11:06]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er enn eina ferðina verið að kjósa í stjórn RÚV ohf. Ég leyfi mér að spyrja þingmenn sem eru að fara að greiða hér atkvæði, hvort þeir geti svarað mér því hver Eva Bjarnadóttir er? (Gripið fram í: Í staðinn fyrir hana.) Hver er stefna hennar í málefnum RÚV? Hvers vegna er hún kosin? (Gripið fram í: Í staðinn fyrir hana.) Á hvaða forsendum fer þessi kosning fram?

Það hefur komið fram í umræðum um RÚV undanfarið að RÚV er í miklum vandræðum, það vantar alla eðlilega stefnumótun. Hér er verið að pota inn pólitískt kjörnum fulltrúum sem enginn, ekki alþjóð, ekki þingið, veit hver er. Hvers vegna er hún ekki kölluð fyrir menntamálanefnd til þess að útskýra afstöðu sína til RÚV og hver stefna hennar í málefnum stofnunarinnar er?

Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Þetta er gamaldags pólitískt hagsmunapot til þess að reyna að ráða yfir einni aðalmenningarstofnun þjóðarinnar og það á ekki að vera gert í flokkspólitískum hjólförum.