138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um nauðsyn þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra komi á fót starfshópi sem endurskoðar peningastefnu Seðlabankans sem í dag ríkir akkúrat engin sátt um.

Seðlabanki Íslands rekur ekki sjálfstæða peningastefnu því að honum ber samkvæmt samkomulagi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að vera með vexti sem tryggja gengisstöðugleika. Það á að nota hátt vaxtastig til að draga úr neyslu innan lands og til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta. AGS hefur verið gagnrýndur fyrir að neyða þjóðir sem búa við hrunið bankakerfi til að innleiða hávaxtastefnu. Reynsla af fjármálakreppum sýnir að hátt vaxtastig kemur ekki í veg fyrir gengisóstöðugleika og dýpkar aðeins kreppuna. Háir vextir leiða til fleiri gjaldþrota fyrirtækja og heimila en ella og íþyngja ríkissjóði sem þarf að reka með halla vegna tekjutaps ríkissjóðs. Rannsóknir sýna að veik tengsl eru á milli vaxta og gengis. Gott dæmi um þetta er reynsla okkar á síðasta ári, þá lækkaði Seðlabankinn virka stýrivexti úr 18% í 9,5%, en á sama tíma styrktist krónan. Með öðrum orðum tryggðu gjaldeyrishöftin gengisstöðugleika en ekki háir vextir.

Í ljósi þessa tel ég afar gagnrýnisvert að peningamálastefnunefnd skuli ekki hafa notað svigrúmið sem gafst á síðasta ári til að lækka vexti niður í 5% og koma þannig hjólum atvinnulífsins af stað.

Herra forseti. Endurreisn (Forseti hringir.) hagkerfisins á forsendum alþjóðafjármagnskerfisins er ekki í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar. Við verðum að þrýsta á AGS (Forseti hringir.) um að taka upp raunhæfa peningastefnu sem tekur mið af raunveruleikanum en ekki (Forseti hringir.) hagfræðikreddum. (Gripið fram í: Vel mælt.)