138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

olíugjald og kílómetragjald.

333. mál
[15:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum að þessu máli og tek heils hugar undir þetta. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur verið mikill og öflugur talsmaður fyrir landsbyggðina. Ég tel að við eigum að líta á þetta sem hluta af byggðapólitík, að tryggja að búið sé úti um allt land en ekki bara hérna á höfuðborgarsvæðinu.

Ef við lítum á dreifinguna, hvar fólk býr, held ég að það megi orðið skilgreina Ísland sem borgríki þar sem svo stórt hlutfall af Íslendingum býr hér á höfuðborgarsvæðinu. Ýmsir sem skiluðu inn umsögnum á fyrri þingum um þetta mál bentu á flækjustigið og hversu tímafrekar og kostnaðarsamar aðgerðir af þessu tagi væru. En ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði áðan, þótt núgildandi lög og reglugerðir um þessa tegund skattlagningar séu uppfull af afslætti og undanþágum fyrir hina og þessa hagsmunaaðila, þó að það þurfi að taka til þar, tel ég að þetta sé eitthvað sem ríkisstjórnin ætti að taka heils hugar undir, að treysta hagsmuni landsbyggðarinnar í formi lægri flutningskostnaðar. Ég bendi á að þau lönd sem hafa verið með virka byggðastefnu, alvöru byggðastefnu, hafa einmitt notað skattkerfið til þess að auðvelda fólki að staðsetja sig og reka heimili sín og fyrirtæki úti á landi.

Ég nefni Noreg sem dæmi þar sem tekjuskattsprósentan er lægri og barnabæturnar hærri ef maður býr norðan við ákveðna gráðu, ég veit að þannig er það alla vega um Tromsø og norðar. Það er ýmislegt sem stjórnvöld víðs vegar hafa gripið til vegna þess að þau telja að það skipti máli að fólk búi úti um allt land. Við á Íslandi höfum margoft lagt fram mjög fallega stefnu, prentaða í litríkum bæklingum, talað fyrir því á hátíðisdögum. Dæmi um þetta má nefna „Störf án staðsetningar“ sem núverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson talaði fjálglega um á sínum tíma þegar hann tók sæti aftur í ríkisstjórn, en svo er lítið um efndir. Fram undan hlýtur að vera heildarendurskoðun hjá hinni svokölluð grænu ríkisstjórn, hinni grænu og norrænu ríkisstjórn, að hún ætli sér að endurskoða skattlagningu ökutækja og eldneytis, vonandi með umhverfissjónarmið í huga. Ég hvet þá viðkomandi flokka til þess að hafa í huga hagsmuni landsbyggðarinnar með því að tryggja lægri flutningskostnað. Ég fagna því að þetta mál sé komið fram og þessari umræðu. Ég tek undir óskir hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar um þetta mál fái efnislega umfjöllun í nefndinni og fari í framkvæmd með þessum hætti eða öðrum sem styður við meginmarkmið frumvarpsins.