138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

efnahagsaðgerðir.

[16:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki hægt um vik að svara á 1–2 mínútum 4–5 mismunandi spurningum um alls óskyld málefni eins og hv. þingmaður var með í máli sínu. Fyrst ræddi hann Icesave, svo stýrivexti, svo skuldavanda heimilanna, svo hjól atvinnulífsins og hvað þetta nú var. (Gripið fram í: Þetta hangir allt saman.)

Ég spyr hv. þingmann af því að hann talar aftur og aftur um að það kynni að taka mjög langan tíma að klára Icesave-málið: Er það afstaða Framsóknarflokksins að það sé ásættanlegt? Er það ekki sameiginlegur skilningur okkar allra að það sé mikilvægt að leiða þetta mál til lykta? (Gripið fram í: Ég get ekki svarað því.) Að það sé mikilvægt að gera það? (Gripið fram í: Þetta er ósanngjarnt.)

Varðandi aðstæðurnar að öðru leyti er auðvitað verið að meta þær á hverjum tíma. Það er t.d. verið að gera ákveðnar fráviksspár varðandi þjóðhagslega hagsmuni sem taka mið af því að tilteknir hlutir gerist eða gerist ekki til að búa okkur undir að takast á við það ef þannig fer. Við vonum auðvitað öll hið besta. Við vonum að viðsnúningur verði í hagkerfinu á þessu ári. Það eru allar forsendur til þess enn þá, en hann er ekki í hendi. Við þurfum að vinna að því að þannig verði það. Það er verkefnið. (Forseti hringir.)