138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[19:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn og aftur málefnalega umræðu um þessi mjög svo mikilvægu mál. Hér er um slíka heildarendurskoðun á málaflokknum að ræða að það er gríðarlega mikilvægt að um málið fari fram góð, gagnleg og ítarleg umræða og menn freisti þess að hafa hana uppbyggilega og málaflokknum til framdráttar af því að þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir almenning.

Hér er um það að ræða að tvenn lög verða til í stað einna sem áður voru skipulags- og byggingarlög og eru nú orðin sérstök frumvörp um skipulag annars vegar og mannvirki hins vegar. Af þeim sökum bið ég þingmenn og hv. umhverfisnefnd að hafa það sérstaklega í huga þegar fjallað er um Byggingarstofnun að hún er einn þáttur í heildarfyrirkomulagi málaflokksins. Það er snúið, vegna athugasemda hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, að taka þann þátt út úr með einhverjum þeim hætti að vísa til þess að þarna verði til nýr útgjaldaþáttur eða falli til ný störf hjá hinu opinbera. Ég fullvissa þingmanninn um að ég hef lagt mig fram um að rýna möguleika í þessu frumvarpi til að hægja verulega á uppbyggingu stofnunarinnar. Með því hversu rólega uppbyggingin mun eiga sér stað er viðurkennt í fyrsta lagi að vegna efnahagsástandsins erum við ekki með mikið borð fyrir báru til uppbyggingar nýrra stofnana og jafnframt er horft til þeirrar staðreyndar að það er í lagi, ef svo má að orði komast, að þessi stofnun gefi sér tíma í að byggjast upp vegna þess að það er ekki um sama þenslutíma að ræða og var fyrir 2–3 árum þegar mikil þörf hefði verið fyrir fullan kraft í stofnuninni frá fyrsta degi. Sú skoðun hefur átt sér stað og ég bið þingmanninn og aðra fulltrúa í umhverfisnefnd að horfa á það með opnum hug að sú tala sem er í frumvarpinu er lögð til vegna þess að það er búið að rýna þetta mjög kirfilega, bæði út frá gjaldinu og innheimtunni en ekki síður vegna þeirra verkefna sem stofnunin mun taka sér fyrir hendur.

Ég skil þegar hér koma upp áhyggjur að því er varðar stjórnsýslustofnanir, miðlægni o.s.frv. Að sumu leyti er um að ræða grundvallarpólitískan ágreining á því hvort og hvernig þá slíku eftirliti á að vera fyrir komið. Ég vil til að mynda nefna Rafmagnseftirlit ríkisins á sínum tíma sem var síðan komið fyrir með öðrum hætti og hafði kannski í för með sér bæði það að eftirlitið varð ekki eins gott og hugsanlega kostnaðarauka fyrir allan almenning. Við skulum hafa slík dæmi í huga en ekki síður vil ég biðja þingmenn, og sérstaklega þingmenn sem eiga sæti í umhverfisnefnd, að hugsa aðeins um að þarna er um að ræða fyrirkomulag sem er til þess að gera að mörgu leyti hluti af endurreisninni vegna þess að við höfum búið við skort á eftirliti og gagnsæi á svo mörgum sviðum. Þetta er eitt af þeim sviðum sem þarf líka að bæta. Ég talaði áðan um að þetta væri kannski fyrst og fremst neytendalöggjöf en þetta varðar hagsmuni á mælikvarðanum ævistarf fólks þannig að það er gríðarlega mikilvægt að við sem stjórnvöld og þeir aðilar sem eiga að hafa heildarhagsmuni almennings að leiðarljósi öxlum þá ábyrgð að búa almenningi á Íslandi nægilega sterkt utanumhald og eftirlitskerfi hvað varðar ævisparnaðinn, ekki síður í þessu efni en þegar við erum að tala um utanumhald utan um bankakerfið eða hvað það er. Ég vildi bara leggja inn þann punkt til umhugsunar en bið þingmennina að hafa í huga þau sjónarmið sem ég hef rætt að því er varðar umfang stofnunarinnar og þennan hraða, ef svo má að orði komast, sem uppbyggingin væntanlega mun eiga sér stað á.

Ég þakka að lokum enn og aftur fyrir góða umræðu um öll þessi þrjú frumvörp sem ég hef mælt fyrir í dag, frumvörp um skipulag, mannvirki og brunavarnir, og vænti þess a.m.k. af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að vinna nefndarinnar verði með þeim hætti að menn hafi heildarhagsmuni að leiðarljósi en ekki flokkshagsmuni eða slík sjónarmið. Hér er um svo gríðarlega dýrmæta hagsmunavinnu að ræða fyrir, ég segi ekki íslenska þjóð, það eru aðrir sem taka sér það orð oftar í munn en ég, en fyrir almenning í landinu er þetta verulega mikilvægt mál og ég treysti hv. umhverfisnefnd vel til að leiða þessi frumvörp til lykta og væntanlega gera þau að lögum í vor. Það verða sannarlega þáttaskil fyrir Alþingi.