138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Því hefur margoft verið haldið fram í mín eyru af mönnum í rekstri að þetta séu þau gjöld sem þeir óttast mest vegna þess að þau fást stundum ekki greidd úr þrotabúinu. Þar af leiðandi eru þau ógreidd þegar skiptum er lokið og þá sitja þeir uppi með að skulda ríkissjóði eitthvað sem þeir höfðu innheimt af öðru fólki, launþegum sínum. Það er oft þannig, þótt menn þekki það kannski ekki hér á hinu háa Alþingi, að menn reyna að halda rekstri fyrirtækja gangandi löngu eftir að það er hætt að vera skynsamlegt, þá með því fororði að reyna að halda atvinnu starfsfólksins, að þeir þurfi ekki að segja því upp, og reyna að halda rekstrinum gangandi í von um betri tíð og blóm í haga. Það er því ákveðin freisting hjá mönnum að halda áfram og nota þessi vörslugjöld í reksturinn. Ef þau fást greidd vegna þess að þau breytast í forgangskröfur, eru þau náttúrlega greidd eftir lokauppgjör. Þá er viðkomandi rekstraraðili ekki lengur í neinum vandræðum, þannig að ég sé ekki annað en að þetta sé honum til töluverðra hagsbóta. Mér finnst þetta ósköp eðlilegt. Ég er ekkert að segja að ég sé á móti þessu.