138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þau svör hæstv. ráðherra að hann ætli að kalla alla að því borði til að fara heildstætt yfir skattamál hér á landi og veitir ekki af því. En ég held að hæstv. ráðherra geti ekki kennt stjórnarandstöðunni á þingi um það að frumvörp er tengdust skattalagabreytingum komu ekki inn í sali þingsins fyrr en í byrjun desember. Þá áttum við í stjórnarandstöðu, og stjórnarliðinu reyndar líka, að gjöra svo vel að afgreiða grundvallarmál er snertu breytingar á skattumhverfi fyrirtækja, heimila og einnig á virðisaukaskattskerfinu á einungis örfáum virkum dögum fyrir áramót. Ef við gætum fullrar sanngirni, frú forseti, þá er einfaldlega ekki boðlegt fyrir okkur þingmenn að vinna í umhverfi sem þessu. Þess vegna ætla ég að fagna því sérstaklega að við munum fara ítarlega yfir skattkerfið núna í þverfaglegum og pólitískum hópi væntanlega á næstu vikum og mánuðum og taka okkur betri tíma en þennan tæpa mánuð sem Alþingi Íslendinga fékk til þess að breyta skattkerfinu í grundvallaratriðum.

Síðan vil ég gera örstutta athugasemd við — ekki kannski fundarstjórn frú forseta, en mér hefði fundist í lagi að ræða þessi mál saman vegna þess að þau tengjast. Ég ætlaði í raun að koma inn á fleiri þætti í seinna málinu er snerta ekki beint þetta mál og ég mun geyma ræðu mína þangað til en ég fagna því að hæstv. ráðherra talar orðið fyrir meiri samvinnu. Við höfum öll séð hverju aukin samvinna hefur skilað þingi og þjóð að undanförnu í hagstæðari samningum er snerta það hryllilega mál sem maður nennir varla orðið að nefna, sem er Icesave. Þar höfum við sparað ríkissjóði a.m.k. tugi milljarða kr. og við höfum líka náð ákveðinni samstöðu og náð að sameina þjóðina í andstöðu við þá ómögulegu samninga sem blöstu við okkur þá. Þetta er kannski nýtt upphaf hér á þingi, að við getum byrjað upp á nýtt og reynt að fara að vinna meira í anda samvinnu og samstöðu.