138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum og það er að mínu mati mjög mikilvægt mál. Því miður stöndum við frammi fyrir því að velja á milli þess að afgreiða það með miklu hraði því að ekki veitir af og hins að vinna það vandlega og fá umsagnir. Þetta er ekki einfalt eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á. Við gætum verið að skekkja samkeppni, við gætum verið að rugla jafnræði o.s.frv. með því að veita þetta vaxtalaust. Við þurfum að skoða það mjög nákvæmlega hvort þetta eigi að vera vaxtalaust eða með eðlilegum vöxtum sem önnur fyrirtæki eru að taka.

Þessir 72 milljarðar sem menn eru að tala um eru með áætlunum og dráttarvöxtum þannig að talið er að af þessari tölu innheimtist eðlilega ekki nema hluti, e.t.v. dálítið góður hluti en í því árferði sem nú er er kannski um að ræða fjármuni sem eru glataðir. En kannski tekst að bjarga þeim með þessum hætti. Ég mundi gjarnan vilja að menn skoðuðu það nákvæmlega hvort eigi ekki að setja á þetta eðlilega vexti sem önnur fyrirtæki eru að greiða. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að sum fyrirtæki eru alltaf í skilum. Þau standa í skilum og þau kreista fjármunina undan nöglunum, þau segja upp fólki og þau hætta við verkefni o.s.frv. til að geta staðið í skilum og eru kannski nýbúin að því. Þau eru kannski nýbúin að fara í einhverjar aðgerðir sem gera það að verkum að þau mynda ekki skuld. Ef þau hefðu vitað af þessu fyrir kannski 4–5 mánuðum hefðu þau hugsanlega látið eitthvað dankast að greiða til ríkisins og ekki sagt fólki upp eða eitthvað slíkt. Þetta er alltaf margþætt ef við skoðum þessi mál, þetta er ekki alveg einfalt.

En ég mun leggja þessu máli lið í hv. efnahags- og skattanefnd. Ég vona að við finnum milliveg á milli of mikils hraða og vandlegrar vinnu og svo þurfum við að skoða það að eyðileggja ekki samkeppnina því að það er hættulegt. Það er alltaf dálítið hættulegt að breyta skuldum í langtímalán en það getur vel verið að það bjargi einhverjum skuldum. Það er kannski í takt við það sem við erum að gera mjög víða enda eru mjög margir, bæði heimili og fyrirtæki, laskaðir eftir hrunið — og svo eru það náttúrlega líka skattar síðasta árs. Ég má til með að gagnrýna ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa skattlagt atvinnulífið og heimilin í þeirri stöðu sem nú er, sérstaklega eftir að bent var á leið sem var miklu betri. Þá þyrftu menn ekki að borga allt of hátt bensíngjald, allt of háa skatta o.s.frv. Það var farið í gífurlegar skattbreytingar rétt fyrir áramót án umræðu og svo komu björgunaraðgerðirnar á eftir. Ég verð að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það svo að ég sé ekki talinn stuðningsmaður hennar. Ég er það ekki.