138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:21]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og ég þakka sérstaklega hæstv. dómsmálaráðherra fyrir faglega aðkomu að málinu og góðar skýringar í ræðu sinni. Það gleður mig að sjá hvaða vinnubrögðum er beitt í þessu máli. Ég verð að setja málið í samhengi, það var til umræðu 15. maí 2008. Þá var á það bent að fjárveitingar til lögreglu, almennrar löggæslu, grenndargæslu, hefðu almennt staðið í stað eða verið skertar meðan embætti ríkislögreglustjóra bólgnaði út sí og æ. Lögreglumönnum var fækkað og það var skorið að beini.

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands hefur nýlega ályktað um þetta mál. Þar er staðan óviðunandi. Þar eru allt of fáir lögreglumenn miðað við íbúafjölda, miðað við allan fjölda sumarbústaða sem þar er og miðað við að þar er réttargæsludeild og Litla-Hraun. Það hefur líka gerst að afbrotum hefur fjölgað í kjölfar efnahagshrunsins, því miður. Það var svo sem fyrirséð. Við erum komin á hættulega braut að mínu mati og ég held að frekari sparnaði og hagræðingu verði ekki komið við án kerfisbreytinga. Það er algjörlega ljóst.

Vel að merkja, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, við erum að takast á við ástand sem jafna má við náttúruhamfarir í efnahagsmálum af mannanna völdum. Það eru góð ráð dýr. Við verðum að forgangsraða í dag í þágu almannaþjónustu. Við verðum að gera það. Mín skoðun er sú að það eigi að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í núverandi mynd, embættið verði framvegis eins og stóð til, 10–20 manna stjórnsýslustofnun, en önnur verkefni verði flutt til lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Með því getum við náð verulegri hagræðingu sem hefur í för með sér aukna skilvirkni og bætta þjónustu.

Hið sama má segja um varnarmálaskrifstofu og fleiri staði. Við verðum að forgangsraða. Ég vil færa hugsunina lengra. Ég vil sameina þjónustu ríkis og sveitarfélaga (Forseti hringir.) á sem flestum sviðum eins og kostur er með sameiginlegum þjónustumiðstöðvum. Þetta er sameiginlegt verkefni, ekki bara löggæslan, heldur líka félagsþjónustan. Við eigum að hugsa svolítið lengra en þetta. Þess vegna geld ég svolítinn varhuga við því að draga sundur embætti sýslumanna og lögreglu.