138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir ágætisinnlegg í þessa umræðu og þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Ég treysti því að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað muni styðja okkur, og þá sérstaklega stjórnarþingmanninn hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, í næstu fjárlagagerð við að framfylgja þeirri stefnu sem hún boðar hér. Við höfum talað fyrir því að ekki verði gengið það nálægt löggæslunni að öryggi borgaranna og grunnþjónustunni sem lögreglan sinnir verði teflt í hættu.

Landsbyggðin hefur til dæmis haft miklar áhyggjur af þessu atriði og við skulum öll hér inni, sem erum greinilega sammála, a.m.k. í dag, strengja þess heit að vera það áfram og láta það halda fram yfir fjárlagagerðina fyrir næsta ár.

Það var ein hugmynd í umræðunni hér í sumar sem mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir hvernig stendur. Það er sú hugmynd sem rædd var m.a. í allsherjarnefnd um að lögreglumönnum stæði til boða að fara fyrr á eftirlaun en nú er. Þessi hugmynd hefur verið í skoðun í ráðuneytinu, veit ég. Mig langar að vita hver staðan á þeim pælingum er, vegna þess að sú leið mundi leysa ýmis vandamál hjá fjölmörgum embættum á landsbyggðinni.

Ég held, frú forseti, að það hafi komið fram í umræðunni að þingmenn úr öllum flokkum eru sammála um að við skulum búa vel að löggæslunni í landinu, að við skulum virða þau mikilvægu störf sem lögreglumenn sinna vel og halda því á lofti að þeim séu búnar þær starfsaðstæður að þeir geti sinnt vinnu sinni vel þannig að grunnþjónustunni verði ekki ógnað.