138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

viðbragðsáætlun og framkvæmd vegna eldgoss.

[17:36]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og góð orð í garð þeirra sem hafa staðið sig vel frá því að gosið hófst.

Gosið hófst laust fyrir miðnætti sl. laugardag og samhæfingarstöð Almannavarna í Skógarhlíð var fullmönnuð tíu mínútum fyrir eitt þessa nótt. Hvað varðar svæðið sjálft var rýmingu þess lokið klukkan hálffjögur um nóttina og má það teljast alveg ótrúlegt hversu vel þetta gekk og hversu fumlaust þarna var gengið til verka og það kemur ekki af sjálfu sér. Vissulega hafa orðið skipulagsbreytingar á almannavarnaskipulaginu á málum og menn hafa undirbúið sig vel bæði með viðbragðsáætlunum og æfingum. Að öðrum ólöstuðum ber að hrósa sérstaklega lögreglustjóranum á Hvolsvelli, Kjartani Þorkelssyni, og hans fólki, starfsfólki embættis sýslumannsins á Hvolsvelli og almannavarnanefndum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Það er hægt að telja lengi áfram, það eru svo margir aðilar sem komu að þessu að það gengur kraftaverki næst að það tók svona skamman tíma að kalla alla saman og stilla saman strengi.

Hvað varðar næstu daga er auðvitað mikil óvissa um hvernig þetta fer allt saman en að sjálfsögðu er fylgst grannt með gangi mála og almannavarnanefndin kemur reglulega saman.

Kostnað verðum við sérstaklega að skoða og ég mun væntanlega gera ríkisstjórninni grein fyrir því á morgun. Við þurfum að skoða hvað hefur fallið til núna, en kostnaðurinn kemur aðallega til vegna aukinnar vöktunar.