138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:34]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst bregðast við athugasemd hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um að sjálfstæðismenn vilji ekki slá af umhverfiskröfum, hvort sem ég trúi því eða ekki. Það held ég bara hreinlega að sé ekki rétt. Hvernig var t.d. með Suðvesturlínu þar sem allt varð vitlaust og umhverfisráðherra kennt um að standa í vegi fyrir öllum framförum á Íslandi? Það snýst einmitt um það hvort slá eigi af umhverfiskröfum eða ekki, hvernig við ætlum að ganga fram, hvort við ætlum að fara í hinar risastóru reddingar, sama hvað það kostar, eða ganga fram af vandvirkni og virðingu við umhverfið.

Hvað má í atvinnumálum? Það má mjög margt. Það má nánast allt. Virkjunarkostir eru til staðar sem nú þegar hafa verið samþykktir. Ég nefni Búðarháls. Hvað er það sem hamlar Búðarhálsi? Það er ekki ríkisstjórnin. Það eru ekki einu sinni vinstri græn. Af hverju er ekkert að gerast þar?

Hverahlíðarvirkjun. Það eru ýmsir virkjunarkostir á borðinu og hafa verið samþykktir. Spurningin er hvar mörkin eigi að liggja og hvernig við göngum fram í þessu máli.

Hv. þingmaður spyr hvaða lausnir við höfum í atvinnumálum. Mig langar þá að vitna í grein hagfræðingsins Jóns Daníelssonar í Fréttablaðinu 17. mars vegna þess að ég lít svo á að hann sé hæfur hagfræðingur, þ.e. hann ætti að tala í takt við Sjálfstæðisflokkinn, en að mínu viti talar hann í rauninni meira á þeim nótum sem ég tala fyrir, þ.e. ríkið á ekki að standa fyrir stórfelldum risalausnum eins og stóriðju heldur leyfa mörgum sprotum að blómstra. Fólkið í landinu sjálft er yfirfullt af góðum hugmyndum en þær þurfa að fá að njóta sín. (Forseti hringir.) Það er mjög margt nú þegar sem blómstrar hjá okkur, ferðaþjónustan sem ég nefndi áðan, útflutningsgreinarnar mala gull, sprotafyrirtæki (Forseti hringir.) fjölga starfsfólki. Ef við ættum nú ekki þessar auðlindir okkar, hvað mundum við gera þá? Danir og Hollendingar bjarga sér vel án auðlinda. (Forseti hringir.) Við getum bjargað okkur vel með auðlindunum, með því að ganga vel um þær.