138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.

415. mál
[15:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn um einn af mörgum mikilvægum þáttum í áætlunum ríkisstjórnarinnar og reyndar fyrrverandi ríkisstjórnar líka um hvernig bregðast á við vanda skuldugra heimila og fyrirtækja. Það reyndist tiltölulega auðvelt að meta þessa tölu en það verður þó að hafa ákveðinn fyrirvara við matið sem ég mun koma að síðar.

Seðlabanki Íslands aflar talna um vanskil í tengslum við gerð lausafjárskýrslna. Þær tölur varða vanskil sem hafa varað lengur en 30 daga. Samkvæmt janúarlokatölum þessa árs, þ.e. 2010, námu vanskil í bankakerfinu þá 673 milljörðum kr. Lækkun dráttarvaxta um 4 prósentustig veldur því að kostnaður vegna dráttarvaxta reiknast þannig um 27 milljörðum kr. lægri á ári eða um 2,2 milljörðum kr. lægri á mánuði. Vísbendingar eru um að hlutur fyrirtækja í þessum vanskilum sé um 90% og heimila þar af leiðandi um 10% og er því ávinningur heimila annars vegar og fyrirtækja hins vegar væntanlega einnig í þessum hlutföllum.

Þetta eru þær tölur sem hægt er að áætla út frá vanskilatölunum og vitaskuld þeirri prósentutölu sem miðað er við. En rétt er að hafa í huga að þegar skuldir eru komnar í mikil vanskil leikur auðvitað vafi á því að þær verði nokkurn tímann greiddar að fullu, hvort heldur er höfuðstóll eða vextir, þannig að ógjörningur er að vita hversu mikið af þeim vöxtum sem ekki verða lagðir á vegna þessarar þörfu breytingar hefðu á endanum verið greiddir. Um það er nær ógjörningur að spá.

Því til viðbótar vil ég vekja athygli á því að þegar ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku frekari aðgerðir til að bæta hag skuldsettra heimila var kynnt fyrirætlan um að lækka þetta álag á þá dráttarvexti sem leggjast á skuldir heimila enn frekar, úr 7% í 5%. Það mundi þýða enn frekari hagsauka fyrir heimili sem nemur svona u.þ.b. helmingi þess hagsauka sem gera má ráð fyrir að þau hafi notið vegna lækkunarinnar sem hér er sérstaklega gerð að umtalsefni.