138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.

415. mál
[15:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég hef ásamt öðrum hv. þingmönnum úr öllum flokkum sem eiga sæti á þingi, lagt fram frumvarp sem kveður á um það, nái það fram að ganga og verða að lögum, að í ákveðinn tíma, þ.e. fram á mitt næsta ár, verði óheimilt að beita þessu vaxtaúrræði, þ.e. dráttarvöxtum, á skuldir einstaklinga. Ég tel að það sé alveg augljóst í kjölfar þess þegar öll lán hækkuðu gríðarlega, bæði vegna verðbólgu og vegna gengisbreytinga, og að í ljósi þeirra aðstæðna sem eru uppi í íslensku samfélagi sé bæði óréttlátt og óskynsamlegt að beita dráttarvaxtatækinu eins og hefur verið gert. Ég er vitanlega þeirrar skoðunar að rétt sé að það fyrirbæri sé til, þ.e. dráttarvextir, en við þessar aðstæður þar sem liggur fyrir að íslensk heimili voru þau skuldugustu í veröldinni fyrir hrun, er ekki skynsamlegt að beita því um of. Ég tel að það sé (Forseti hringir.) jafnframt skynsamlegt líka að gera það með þeim hætti sem ég hef lagt til, að afnema þá í ákveðinn tíma, enda er það svo að vextir á Íslandi eru mjög háir og fjármagnseigendur fá fyrir sinn snúð mjög háa vexti nú þegar, (Forseti hringir.) miklu hærri en þeir ættu í raun og veru að fá.