138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:24]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægð með þetta frumvarp og lýsi mig í upphafi meðmælta því að það verði afgreitt sem lög frá Alþingi. Ég get rifjað það upp í upphafi að sú er hér stendur var flutningsmaður að sambærilegu máli á sínum tíma. Þá var 1. flutningsmaður Kolbrún Halldórsdóttir, sem var þá þingmaður, en aðrir sem fluttu það mál voru hv. þm. Atli Gíslason, Katrín Jakobsdóttir, Ögmundur Jónasson, Bjarni Harðarson, Siv Friðleifsdóttir og Grétar Mar Jónsson, öll hv. þingmenn á þeim tíma.

Það er búið að skoða þetta mál áður í þinginu og er löngu orðið tímabært að ganga frá því og klára það þannig að ég fagna því að hæstv. dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir skuli núna koma með málið inn. Það er þá ekki lengur þingmannamál heldur er frá hæstv. ráðherra sem gefur því aukið vægi.

Á sínum tíma voru sett lög um staðfesta samvist og voru þau mjög mikil réttarbót. Þau gengu í gildi á alþjóðlegum frelsisdegi lesbía og homma 27. júní 1996. Þegar við tókum þetta skref gerðum við það að fyrirmynd nágrannaþjóða okkar, Svía, Dana og Norðmanna, sem þá höfðu samþykkt slík lög. Við vorum í 4. sæti á Norðurlöndunum að taka það skref á þeim tíma. Síðan í maí árið 2000 samþykkti Alþingi breytingar á lögunum um staðfesta samvist þar sem stjúpættleiðingar barna hjá fólki í staðfestri samvist voru heimilaðar. Ísland varð þannig annað landið í heiminum á eftir Danmörku þar sem þessi réttur var lögfestur, þar vorum við því í fararbroddi má segja, í öðru sæti í öllum heiminum varðandi stjúpættleiðingar barna hjá fólki í staðfestri samvist.

Núna erum við að taka enn eitt skrefið, verði þetta að lögum. Þótt við séum alls ekki meðal þeirra síðustu erum við alls ekki í fararbroddi að þessu sinni af því að það eru fjölmörg önnur ríki sem hafa tekið þetta nú þegar upp. Það kemur fram á bls. 15 í greinargerðinni að réttarstaða samkynhneigðra breytist ört um allan heim. Þar kemur líka fram að Holland varð fyrst ríkja heims til að setja ein hjúskaparlög fyrir alla árið 2001. Spánn fylgdi í kjölfarið árið 2005. Önnur ríki sem heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband, auk Norðurlandanna Noregs og Svíþjóðar, eru: Belgía, Kanada, Suður-Afríka, Portúgal, fylkið Mexíkóborg og eftirfarandi ríki Bandaríkja Norður-Ameríku: Massachusetts, Connecticut, Iowa, Maine, Vermont, New Hampshire og Washington DC, þannig að það eru fjölmargir búnir að stíga þetta skref. Þau eru framarlega þarna og við erum a.m.k. ekki í öðru sæti eins og varðandi stjúpættleiðingarnar. En þetta er gott mál.

Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um það grundvallaratriði að mismuna ekki fólki. Samkvæmt stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og má segja að á meðan tvenn lög gilda í hjúskap eftir kynhneigð fólks eins og er í dag sé farið fram hjá þessari grundvallarreglu. Þetta er grundvallarmál, virðulegi forseti.

Ég vil líka rifja upp að 6. desember 2005 barst Alþingi áskorun frá samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, FAS, um að breyta hjúskaparlögunum á þann veg sem við erum núna að gera. Þessi mál komust þá talsvert mikið á dagskrá. Þessi samtök ásamt Prestafélagi Íslands stóðu að umræðunni um þessi mál af því að það var ágreiningur að vissu leyti við þjóðkirkjuna um að stíga þetta skref. Það voru haldin þrjú málþing á þessum árum sem fjölluðu sérstaklega um þessi mál. Ég reyndi að sækja þessi þing, alla vega man ég eftir einu málþinginu og þar var mjög áhugaverð umræða.

Kirkjan hefur verið nokkuð klofin í afstöðu sinni til þessa máls. Það eru prestar innan kirkjunnar sem eru mjög fylgjandi því að taka þetta skref og klára þessi mál á meðan aðrir eru íhaldssamari, þeir eru kannski meira í bókstafstrúnni, ef ég má orða það þannig, virðulegi forseti, en hinir frjálslyndari vilja fylgja þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur í samfélaginu. Það er alveg ljóst að þarna hafa orðið mjög djúpstæðar viðhorfsbreytingar. Á sínum tíma var gerð Gallup-könnun, það eru ekki mörg ár síðan hún var gerð, ég veit ekki hvort gerðar hafa verið kannanir nýlega, en þegar þessi var gerð voru 87% landsmanna hlynnt því að samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband þannig að það var yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sem var hlynntur því. Langflestir þeirra töldu að samkynhneigðir ættu að fá að giftast í kirkju eða borgaralega þannig að það er alveg ljóst að fordómar gegn samkynhneigðum eru á mjög hröðu undanhaldi í samfélagi okkar. Þá kom fram í frétt einni skemmtileg hugsun. Hún var sú að kirkjan ætti kannski ekki að hlaupa á eftir skoðanakönnunum en hún hlyti þó að velta því fyrir sér hvort ástæða væri til að streitast á móti almennri viðhorfsbreytingu í samfélaginu sem virðist í prýðilegu samræmi við meginstefnu um kenningu Krists um manngildi og kærleika. Þarna er um djúpar og varanlegar breytingar að ræða í viðhorfi fólks til samkynhneigðra og kirkjan hlýtur að taka mark á því. Mér finnst frekar ólíklegt að kirkjan muni leggja stein í götu þessa máls. Það þyrfti talsverðra skýringa við þannig að ég efast um að svo verði.

Það má líka spyrja sig: Af hverju ættum við ekki að samþykkja þetta? Þá verða menn að grafa svolítið djúpt eftir rökum af því að rökin gegn þessari breytingu eru ekki mjög sterk.

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn hefur fjallað um þessi mál nokkrum sinnum á flokksþingum sínum og hefur við þau tilefni ávallt stutt réttindabaráttu samkynhneigðra og ég er svolítið stolt af því. Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur í þessum málum og framsýnn og núna á síðasta flokksþingi sem haldið var árið 2009 var samþykkt sérstök ályktun. Mig langar að lesa hana, með leyfi virðulegs forseta. Stefna Framsóknarflokksins hljómar svo:

„Mikilvægt er að samkynhneigðir njóti réttinda til jafns við aðra í samfélaginu. Rétt er að löggjöfin endurspegli ekki aðgreiningu gagnvart þeim. Því skal hafa eina hjónabandslöggjöf í landinu sem gildir fyrir alla.“

Það er ekki hægt að hafa þetta skýrara. Framsóknarflokkurinn styður að það verði ein hjónabandslöggjöf í landinu öllu fyrir alla hvort sem þeir eru gagnkynhneigðir eða samkynhneigðir. Ég vil líka tína það til að það verður ekki með nokkru móti hægt að segja að það rýri gildi eða tíðni hjónabanda gagnkynhneigðra að veita samkynhneigðum þann sjálfsagða rétt að ganga í hjónaband. Það er ekki verið að ganga á rétt annarra með þessari breytingu, hún er svo sjálfsögð.

Frumvarpið er svolítið sérstakt. Þetta er bandormur, þarna eru mjög margar greinar og þær grípa inn í hin og þessi lög og alls staðar er verið að fella út orðin „staðfest samvist“ eða „samvistarmaki“ eða „kjörmóðir“. Það er sem sagt verið að sía alla löggjöf og henda þessu gamla. Í hjúskaparlögunum í dag stendur að karl og kona geti gengið í hjónaband en í framtíðinni mun standa þarna að tveir einstaklingar geti gengið í hjónaband. Það geta þá verið tvær konur eða tveir karlar.

Það eru margir sem spyrja mig hví í ósköpunum ég hafi lagt mig svona mikið fram í þessari réttindabaráttu, ég er ekki einu sinni gift sjálf, sem er kannski ekki mjög mikilvægt í þessu samhengi, en mér finnst mjög mikilvægt að allir, hvort sem þeir eru gagnkynhneigðir eða samkynhneigðir, eigi það val að geta gengið í hjónaband eða ekki og það sé enginn munur á þeirra hjónaböndum.

Margir hafa talað um að Alþingi sé orðið svolítið sérstakt, það eigi að banna allt, það á bara að banna og banna á Alþingi. Þetta er meira leiðindafólkið á Alþingi, alltaf að banna eitthvað. Það er búið að banna vændi, það er búið að banna nektarsýningar og nú er verið að banna fólki yngra en 18 ára að fara í ljósabekki, allt á að banna. En nú ætlum við að stíga mikið skref, nú ætlum við að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband eins og gagnkynhneigðir þannig að það er alls ekki eins og við séum alltaf að banna eitthvað. Í morgun vorum við öll sem tókum til máls sammála um að leyfa gjafasæði í glasafrjóvgun m.a. fyrir einstæðar mæður þannig að það má segja að Alþingi Íslendinga sé verulega frjálslynt í þessum málum þótt það taki upp á því að banna að kaupa vændi og nektarsýningar. Fyrir mér er það reyndar frjálslyndi.

Ég lýsi mig mjög sammála þessu frumvarpi og mun gera mitt til að liðka fyrir að það nái fram að ganga. Ég sé ekki að nokkur tapi á því, ég tel að þetta sé sjálfsagður réttur og grundvallarréttur að aðgreina ekki fólk samkvæmt lögum eða að mismuna því á nokkurn hátt eftir kynhneigð fólks. Það eiga allir sama rétt í okkar samfélagi algerlega óháð kynhneigð.