138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[16:16]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér gagnmerkt mál. Það sem mig langar til þess að tala aðeins um er það andrúmsloft sem var hér í fjölmiðlum meðan málið var til afgreiðslu í efnahags- og skattanefnd. Þá var mikið um yfirlýsingar í fjölmiðlum og þær voru sumar hverjar ansi glannalegar. Við sáum t.d. fréttir í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá því að 127 milljarða hagnaður hefði verið óskattlagður í bönkunum í hlutabréfakaupum. Þetta var nefnt sem dæmi um það hversu mikil siðspilling væri í þessum málum í þjóðfélaginu. Síðan las maður greinina og þeir sem höfðu nægilega mikinn áhuga entust til að skoða seinustu setninguna sem sagði: Þess má geta að ekki er búið að draga kaupverðið frá. Það hefði því verið gaman að vita hver hinn raunverulegi óskattlagði hagnaður var.

Annað dæmi sáum við í yfirlýsingu sem hæstv. forsætisráðherra gaf á blaðamannafundi þegar verið var að tilkynna um að setja ætti á stofn sérstakan hóp hjá skattrannsóknarstjóra, 20 manna hóp, sem átti að vera einhvers konar sérsveit sem mundi ráðast að skattsvikum og öðru slíku. Hæstv. forsætisráðherra gaf út yfirlýsingu um að það væri óskattlagður hagnaður upp á hundruð milljarða vegna afleiðuviðskipta. Ég kynnti mér það mál vegna þess að það kom mér ákaflega mikið á óvart og þá kom í ljós að skattstofninn gat hugsanlega verið einhverjir tugir milljarða. Ef það eru 50 milljarðar eru sirka 5 milljarðar óskattlagðir. En þetta réttlætir ekki skattsvik, þrátt fyrir að yfirlýsingarnar hafi verið glannalegar réttlætir það slíkt á engan hátt. Það skal fagna því verkfæri sem skattrannsóknarstjóri eða skattyfirvöld fá hér til þess að kyrrsetja eignir ef þau hafa grun um að verið sé að stinga undan fjármunum sem réttilega ættu heima í ríkissjóði.

Við heyrðum hér í ræðu áðan hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að það væru miklir peningar að renna úr landi, þar sem menn væru að stinga undan skatti. Fyrir mér eru það nokkrar fréttir vegna þess að hér á landi eru gjaldeyrishöft og það er nær ómögulegt að koma peningum úr landi nema löglegum peningum. Það eru reyndar mjög hörð viðurlög við því athæfi ef maður vill fara með peninga úr landi þannig að ég skil ekki alveg hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar.

Það er eitt sem ég var hugsi yfir í nefndinni og fjallaði þó nokkuð ítarlega um og hv. þm. Pétur Blöndal kom einnig inn á, það er hugsanleg misbeiting valds í tengslum við skattrannsóknir. Hér er verið að færa auknar heimildir til kyrrsetningar eigna. Það er sprottið upp úr því umhverfi sem við lifum í núna, hruninu, þar sem eflaust var farið á svig við lög og jafnvel lög brotin og annað slíkt og svikið undan skatti. Þetta er nákvæmlega sama andrúmsloft og ríkti í Bandaríkjunum upp úr 1929. Bandarísk yfirvöld sáu sig knúin til þess að gefa skattyfirvöldum í Bandaríkjunum auknar heimildir til kyrrsetningar og valdbeitingar gagnvart þeim sem á einhvern hátt lágu undir grun um að hafa svikið undan skatti. Það gekk allt saman vel og skattyfirvöld vönduðu sig og leystu úr þeim málum sem þurfti að leysa úr þar. Síðan kom hinn svarti blettur á sögu Bandaríkjanna, hið svokallaða McCarthy-tímabil, þá gátu yfirvöld notfært sér þessa lagabókstafi eða þessi leyfi til þess að kúga fólk og fyrirtæki. Öfgahægrimenn í Bandaríkjunum notuðu skattrannsóknarbatteríin í Bandaríkjunum til þess að kúga vinstri menn á þessu hræðilega tímabili, McCarthy-tímabili, þegar verið var að neyða upp úr mönnum hvort þeir styddu kommúnisma eða væru kommúnistar. Þrátt fyrir að lögin í Bandaríkjunum hafi verið sett í góðri trú og við mjög svipaðar aðstæður og eru hér á Íslandi, tók bara óvart við annað tímabil sem enginn sá fyrir þar sem lögin voru notuð og einstaklingar og fyrirtæki voru kúguð.

Þess vegna geld ég varhuga við þessum auknu heimildum að nokkru leyti, þrátt fyrir að ég sé á engan hátt að kasta rýrð á það vandaða fólk sem vinnur hjá skattyfirvöldum í dag. En ég segi þessa dæmisögu frá Bandaríkjunum til að undirstrika það að öllu valdi fylgir ábyrgð og þegar löggjafinn færir aukin völd til stofnana sinna ber að hafa svona hluti í huga.

Jafnframt höfum við, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, hinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd, haft nokkrar áhyggjur af því að þarna er ekki kveðið á um neitt lágmark í lögunum sem hægt er að tala um, þannig að skattyfirvöld geta farið að einstaklingum, að litlum fyrirtækjum og öðru slíku, og jafnvel notað það hótunarvald sem falið er í þessum auknu valdheimildum til að kúga fram einhvers konar upplýsingar. Þetta teljum við vera afar slæmt og í viðleitni okkar til þess að sporna við því hversu mikið þetta ákvæði verður notað, leggjum við til í breytingartillögu að þetta eigi eingöngu við mál þar sem grunur er um undanskot yfir 50 milljónum. Við teljum að með því höfum við farið nægjanlega langt til þess að hægt sé að ná til þeirra sem menn beina helst sjónum að varðandi það hrun sem við stöndum nú mitt í.

Það er kannski eitt atriðið sem er umhugsunarvert og það er áhrif á þriðja aðila. Það er ljóst að með því að valda einum kyrrsetningu getur maður haft áhrif á þriðja aðila sem getur haft einhvers konar keðjuverkun í för með sér. Mér finnst ekki nægilega girt fyrir að þetta geti komið af stað einhvers konar keðjuverkun. Þarna er skattskuldin tvímælalaust forgangskrafa, enginn annar fær greitt af þessari skuld. En segjum sem svo að það kæmi í ljós eftir skattrannsókn einu eða tveimur árum seinna, eða á seinustu stigum skattrannsóknar eftir að úrræðinu hefur verið beitt, að sá sem varð fyrir barðinu á þessu tæki hafi einfaldlega verið saklaus. Þá á hann tvímælalaust skaðabótarétt á hendur ríkinu. En spurningin er um þriðja aðila sem varð fyrir þessu, á hann einhvern rétt gagnvart ríkinu, eða ríkið fyrir það tjón sem gjörðin olli þeim? Spyr sá sem ekki veit. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði.

Almennt vil ég segja að það er til bóta að skattyfirvöld og skattrannsóknarstjóri hafi aukin tæki í tækjabúri sínu til þess að takast á við skattsvik. Eins og hv. þingmenn hafa komið inn á er það ólíðandi að sumir þurfa að borga skatta en aðrir ekki og þjóðfélagið á að taka hart á því, ekkert þó frekar á þessum tímum en almennt. Menn eiga að fylgja lögum, til þess eru þau, og ef menn brjóta lög á að refsa þeim. Það á enginn að vera undanþeginn því, hvorki á þessum tímum né öðrum.

Að öðru leyti lýsi ég mig fylgjandi þessu frumvarpi og mun greiða því atkvæði mitt og leggja fram breytingartillögu með hv. þm. Pétri H. Blöndal þar sem við gerum ráð fyrir því að tækinu verði ekki beitt nema að grunur sé um að skattsvikin séu meiri en sem nemur 50 millj. kr.