138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er nú ekki alveg sammála hv. formanni nefndarinnar Helga Hjörvar um að þetta sé lítið mál og sakleysislegt vegna þess að ég tel að þetta höggvi að vissum rótum, þ.e. að skilvísi og því að menn séu ábyrgir, greiði sína skatta og skyldur og reki sín fyrirtæki með framtíðarsýn.

Þegar margir atvinnurekendur sjá fram á vandræði og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar — ég ætla nú ekki að vera með pólitíska vísun, enda kannski ekki efni til — draga þeir saman seglin. Þeir segja upp fólki og hætta við áform o.s.frv. til þess að geta staðið í skilum. Þannig standa þeir í skilum með því að herða sultarólina, með því að breyta rekstrinum og minnka umsvifin. Þetta eru viðbrögð hins viti borna manns í atvinnurekstri sem horfir til framtíðar, er skilvís og veit af sínum skuldum og þess háttar. Það sem þetta frumvarp gerir er að það tekur skuldir hinna sem skulda skatta. Sumir hverjir gera það reyndar að ósekju núna eftir hrunið vegna þess að þeir hafa lent í stöðu sem þeir ráða hreinlega ekki við. Má segja að það réttlæti þessa aðgerð, en engu að síður eru einhverjir sem kunna að hafa brugðist við með herkjum og pínt fram greiðslur, annaðhvort hafa þeir lagt fram nýtt eigið fé úr eigin sjóðum eða fá það annars staðar, þeir hafa gripið til sparifjár og annars slíks til að borga þessar skuldir. Það er því ekkert voðalega einfalt að koma allt í einu til þessara aðila og segja: Heyrðu, samkeppnisaðilinn fær allt niðurfellt eða breytt yfir í skuldabréf með vaxtaleysi í 18 mánuði.

Ég stóð í þeirri meiningu að nefndin ætlaði sér að breyta því að miða við 1. janúar 2010, þann dag sem skuldinni var breytt. Nei, það er miðað við 1. júlí 2011, þ.e. 18 mánuðum seinna, þannig að upphæðin er vaxtalaus og verðbótalaus. Nú liggja þessir menn væntanlega á bæn og vonast til þess að verðbólgan verði mjög safarík fram til 1. júlí 2011 þannig að skuldin hafi nú rýrnað almennilega áður en henni verður breytt yfir í skuldabréf. Síðan eiga þeir að vera vaxtalausir í þessi ár sem um er að ræða og það er líka gjöf. Ég hugsa að ef verðbólgan verður svona eins og stefnir í, 8–10% á ári, rýrni skuldin um ein 12–15%. Svo er viðbúið að reikna megi vaxtaleysið, ég hef ekki núvirt það, en það eru örugglega ein 10% í viðbót, það er verið að gefa u.þ.b. fjórðung af skuldinni eftir. (Gripið fram í.) Á móti þessu stendur einhver annar aðili sem lagði fram fé sjálfur til þess að halda rekstrinum gangandi. Hann fékk hugsanlega lán í banka fyrir þessum skuldum og þar þarf hann að borga vexti á verðtryggðar skuldbindingar sem núna eru með grunnvöxtum t.d. Íslandsbanka. Ég kíkti á það í morgun, grunnvextir Íslandsbanka í verðtryggðum útlánum eru 5,5%, frú forseti, svipað eins og Icesave-reikningarnir, sem voru með 5,55%. Það er það lágmark sem atvinnulífið borgar fyrir verðtryggð lán ef það fær þau. Því finnst mér ekki alveg nógu sniðugt að hafa þetta vaxtalaust.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að mikið af þessum skuldum verður aldrei greitt. Mikið af þessu eru áætlanir. Það var ekki hægt að sundurliða það fyrir nefndinni hve stór hluti þessa voru áætlanir. Eitthvað er í gjaldþrotameðferð og verður aldrei greitt. Því miður er líka töluvert mikið af þessu þannig að þeir sem skulda lenda í fangelsi, sem oftast er nú reyndar unnið með samfélagsþjónustu. Það er mjög dapurlegt að slík skuli verða örlög manna sem verða undir í atvinnulífinu, eitthvað sem ég held að efnahags- og skattanefnd þyrfti að skoða.

Ég er hreinlega ekki sammála því sem Samkeppnisstofnun sagði á fundi nefndarinnar, að þetta skipti ekki máli gagnvart samkeppni, ég tel að þetta skipti bara verulegu máli gagnvart samkeppni, eins og ég nefndi áðan. Það er einhver búinn að draga saman reksturinn, búinn að straumlínulaga hann og segja upp fullt af fólki og hann er hættur við einhver áform sem hann hafði. Halda menn að samkeppnin njóti þess ekki, þeir sem héldu áfram æðibunuganginum og takmörkuðu ekki eitt eða neitt? Ég tel að þetta hafi verulega mikil áhrif á samkeppnina og eigi eftir að koma í ljós. Ég er því alls ekki sammála þessari umsögn Samkeppniseftirlitsins að þetta brjóti ekki gegn markmiðum samkeppnislaga, fyrir utan að þetta brýtur líka gegn markmiðum réttlætis hjá fyrirtækjum.

Þess vegna hef ég lagt til breytingartillögu um að í stað þess að þetta skuldabréf sé án vaxta, væri það með 5,5% vöxtum, eins og eru grunnvextir á verðtryggðar skuldbindingar í Íslandsbanka í dag, svo kemur álag ofan á það allt að 5%. Menn geta þurft að borga 10,5% vexti ofan á verðtryggingu á þetta venjulega atvinnulíf á sama tíma og þessir aðilar fá enga vexti eða 0%. Mér finnst þetta ekki vera neitt smámál í sjálfu sér. Það er verið að verðlauna það að standa ekki í skilum og hegna þeim sem eru skilvísir. Það gengur kannski ansi margt út á það núna þessa dagana að gera einmitt það, þeim sem voru varkárir og fóru ekki í neinn æðibunugang er refsað í dag eða látnir borga fyrir hina.

Þetta er nú gangurinn og ég vona að menn læri ekki að vera óskilvísir með svona aðgerðum, að ríkisvaldið og löggjafinn séu að kenna mönnum að vera nú óskilvísir, þá sé þeim bjargað og fái betri kjör. (Gripið fram í.)

Ég segi eins og áður að þetta er ekki einfalt eða lítið mál. Reyndar ætla ég að draga þessa breytingartillögu til baka til 3. umr. vegna þess að ég hef fengið upplýsingar um, og það kom reyndar fram í nefndinni, að ekki mjög stór hluti af þessum kröfum verður greiddur yfirleitt, þannig að það skiptir kannski ekki máli hvort það er með vöxtum eða ekki. En merkið sem verið er að gefa út til samfélagsins er: Vertu ekkert að standa í skilum, elsku vinur, þér verður hjálpað að komast yfir hjallann.