138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:33]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem upp af sömu ástæðu og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir. Ég tel ekki við hæfi að þingmenn ræði þessa skýrslu eins óundirbúið og við blasir. Það hefur ekki gefist nægur tími til að kynna sér þetta mál og mig langar að beina því til hæstv. forseta og þingheims að gert verði ráð fyrir þessum lið í dagskrá þingsins aftur í næstu viku í a.m.k. tvo daga þar sem hægt verður að gaumgæfa betur og fara ítarlegar í öll þau atriði sem þessi skýrsla tekur til. Þetta er sennilega eitthvert mikilvægasta mál lýðveldissögunnar á Íslandi og að ætla sér að ganga svona yfir það og ganga frá því með þeim hætti eins og þetta þing ætlar að gera í dag og á morgun er einfaldlega ekki nægilegt og ég óska þess að vinnubrögðin við þetta mál verði vandaðri.