138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Einkavæðingin síðari var góð, ég hef aldrei mótmælt henni. Hún flytur inn þekkingu, tengsl og margt fleira og er mjög jákvæð og gerir auk þess uppgjörið milli nýju og gömlu bankanna miklu auðveldara. Af því að hv. þingmaður gagnrýndi einkavæðingu og hann sjálfur og hans ríkisstjórn stendur að því að einkavæða fannst mér að hann ætti að svara fyrir það hvort búið sé að breyta einhverju. Því miður hefur nefnilega ekki nægilega miklu verið breytt.

Varðandi að hæstv. forsætisráðherra sé óumdeildur þá er ég ekkert viss um það. Ég t.d. er ekkert hrifinn af því þegar hún talar um kattasmölun til þess að koma á flokksaga og eyðileggja lýðræðið á Alþingi. Ég er ekkert voðalega hrifinn af því. Eða þegar hún talar um að það eigi að koma á skattalagabreytingum en talar ekki við kóng eða prest og ber það ekki undir neinn.