138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var alveg prýðileg varnarræða fyrir Sjálfstæðisflokkinn og við vitum það þá a.m.k. að ekkert af því sem gerðist var honum að kenna. Það liggur þá líka alveg ljóst fyrir samkvæmt dómi hv. þingmanns að það var einkum stjórnarandstaðan á árum fyrri sem var óábyrg, kallaði á meiri útgjöld og var á móti því sem hægt væri að gera til að koma í veg fyrir þessa þróun. Má ég rifja upp fyrir hv. þingmanni að þegar hér var einu sinni staddur ónefndur formaður ónefnds stjórnmálaflokks sem sagði að sambland af skattalækkunum og hækkunum á íbúðalánum væru tifandi tímasprengja? Kannast hv. þingmaður við það? Sá sem það sagði sætti hörðu ámæli af hálfu Sjálfstæðisflokksins.

Hvað birtist síðan í skýrslunni í gær? Jú, einhver mestu hagstjórnarmistök sem orðið hafa, segir í skýrslunni, voru einmitt þessi eitraða blanda árið 2003. En ég kem samt ekki hingað upp til að rekja það til nokkurs sérstaks flokks. Ég er sammála hv. þingmanni um að við skulum reyna að læra af þessu.

Það er rétt sem hv. þingmaður hefur eftir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins að þegar komið var fram yfir ákveðið tímaskeið árið 2006 var ekkert hægt að gera. Það var kannski hægt að draga úr skaðanum en hrunið var líkast til óumflýjanlegt, eins og segir í skýrslunni. En hver er hin upphaflega rót þessarar þróunar? Kann það að vera að það hafi verið einkavæðing bankanna? Það er spurning mín til hv. þingmanns. Ég heyri það á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þeir eru hér aðallega til að verja einkavæðinguna. Gott og vel. Þeir mega hafa trú á henni, við höfum það mörg. En það sem mig langar að spyrja hv. þingmann er: Telur hann að einhver mistök hafi verið gerð við einkavæðingu bankanna sem kynnu að hafa átt þátt í þeirri stöðu sem við erum í núna?