138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:55]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því, sem ég gleymdi áðan, að þakka hlý orð í minn garð og nefndarinnar.

Viðkvæm mál, það er alveg hárrétt, þetta eru viðkvæm mál, þ.e. það sem lýtur að ráðherraábyrgðinni. Við höfum rætt það ítarlega í nefndinni og farið mjög ítarlega yfir það. Það er í verklagsreglunum sem eru birtar á heimasíðu Alþingis — voru settar á heimasíðuna, að ég held, í síðustu viku, á fimmtudaginn — þar sem menn geta allir kynnt sér þær. Þar er tekið á þessu að hluta til. En þetta deilist í tvennt, annars vegar erum við hér að tala um pólitík, lagauppstokkun, lagaumbætur og hins vegar um þessa ákæruvaldsstöðu sem við erum í. Þar gætu gáleysisleg ummæli komið fram sem formvörn í hugsanlegri málssókn. En við höfum rætt þetta ítarlega fram og til baka og náð samstöðu um það.

Ég vil svo taka það fram að lokum að allar fundargerðir nefndarinnar eru líka birtar á heimasíðu Alþingis.