138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar er komin skýring á málinu. Hv. þingmanni fannst þetta ómögulegt og var á móti því virtist vera, ég á eftir að fara yfir atkvæðagreiðsluna, hvort hún greiddi atkvæði eða var ekki í salnum. En hennar flokkur, núverandi formaður og væntanlega talsmaður í þessu máli lýsti stuðningi Samfylkingarinnar við þetta frumvarp, við 90% lánin. Hv. þingmaður getur væntanlega upplýst hér á eftir hvort hún var hér í þingsal og hvort hún greiddi atkvæði með þessu frumvarpi eða með einhverjum öðrum hætti.

Samfylkingin samþykkti þetta. Það má finna örfáa þingmenn Sjálfstæðisflokks sem mölduðu í móinn í þessu máli en samþykktu þetta væntanlega vegna þess að þeir voru í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum á þessum tíma, en Samfylkingin samþykkti 90% lánin.