138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alþingismenn ræða í dag skýrslu rannsóknarnefndar. Það er þyngra en tárum taki hvernig búið er að leika íslensku þjóðina undanfarinn áratug. Þar kalla ég stjórnvöld, útrásarvíkinga, bankamenn, endurskoðendur og eftirlitsstofnanir til ábyrgðar. Skýrslan er afar vönduð og faglega unnin og ég þakka öllum þeim aðilum sem komu að vinnslu og gerð hennar fyrir ómetanlegt starf. Þetta starf var svo sannarlega unnið í þágu þjóðarinnar.

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salnum.)

Nú liggur þessi úttekt fyrir og ekki dettur mér eitt andartak í hug að mótmæla því eða verja það sem í skýrslunni stendur þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn hér á árabilinu 1995–2007. Ég sem framsóknarmaður deili ekki við dómara. Niðurstaðan er komin og margar rangar ákvarðanir voru teknar, það kemur fram í skýrslunni. En málin eru nú komin í farveg og sumum þeirra búið að vísa til saksóknara.

Sárindi eru mikil og spurningarnar margar sem vaknað hafa við lestur skýrslunnar hjá þjóðinni og dómstólar landsins hafa síðasta orðið í því ferli sem nú er farið af stað. Skýrslan er sá grunnur sem við verðum að nota sem stökkpall til bættrar framtíðar. Fortíðinni getum við því miður ekki breytt, en við getum haft áhrif á nútíðina og ekki síst á framtíðina.

Ég tók þá ákvörðun þegar ég náði kjöri sem þingmaður að vinna til heilla fyrir þjóðina og leitast við að eiga þátt í því að taka ákvarðanir sem leiða af sér farsæla framtíð fyrir Íslendinga, enda sit ég á þingi sem fulltrúi þjóðarinnar. Tímum baktjaldamakks, leynisamninga og leyndarhjúps á að vera lokið eftir þau ósköp sem gengu hér yfir á haustdögum 2008, en er þeim lokið? Ég bið ráðherra hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarþingmenn að íhuga þessi orð mín vel. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í hádegisútvarpinu á RÚV nú 10. apríl sl., með leyfi forseta:

,,Yfirlýsing Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Icesave var ekki borin undir Breta og Hollendinga til samþykktar né synjunar. Hann segir efni yfirlýsingarinnar vera trúnaðarmál.“

Er þetta það gagnsæi sem við köllum eftir eftir að skýrslan kom út, trúnaðarsamband — leyndarhjúpur? Ég hvet stjórnvöld til að leggja aukinn kraft og fjármagn til rannsóknaraðila og dómstóla því að þjóðin þarf á því að halda nú að þessi mál verði afgreidd hratt og af fagmennsku.

,,Ég á þetta — ég má þetta“ var haft eftir einum gerandanum í útrásinni um borð í flugvél Icelandair er hann var með dólgslæti um borð í vélinni. Þetta viðhorf lýsir e.t.v. einna best þeirri firringu sem þeir menn voru haldnir sem komu Íslandi á kaldan klaka. En þegar upp var staðið, og við sjáum það í skýrslunni, áttu þessir menn ekki neitt. Alls ekki neitt. Þeir veðsettu allt sem þeir komust yfir; bótasjóði tryggingarfélaganna, lífeyrissjóði landsmanna. Þeir voru á góðri leið með að ná tökum á auðlindum þjóðarinnar til veðsetningar fyrir sjálfa sig. Engu var eirt.

Skýrslan er viðamikil og ekki var nokkur leið að lesa hana yfir á þeim stutta tíma sem liðinn er frá birtingu hennar. Ég valdi því úr kafla sem snerta innihald ræðu minnar, enda var það einfalt mál því að skýrslan er afar vel upp sett. Þessi ræða mín snýr að Alþingi og lagasetningu undanfarinn rúman áratug. Ég hef mínar hugmyndir og hef sett þær fram í ræðum sem ég hef flutt. Að mínu mati má rekja þær hörmungar sem við lentum í til setningar laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Miklar deilur spruttu á Alþingi í aðdraganda þeirrar lagasetningar, en á þeim tíma voru kratar og sjálfstæðismenn í ríkisstjórn. Var það mat margra lögspekinga að EES-samningurinn fæli í sér fullveldisafsal þjóðarinnar og það hefur heldur betur komið á daginn. Það gekk svo langt á þessum árum og deilurnar voru svo miklar í samfélaginu að Framsóknarflokkurinn klofnaði í afstöðu sinni til málsins.

Meginuppistaða EES-samningsins er hið svokallaða fjórfrelsi sem gengur út á frjálsan flutning vöru, fólks, þjónustu og fjármagns yfir landamæri innan Evrópusambandsins. Þarna var lagður grunnur að því gerræðislega og taumlausa fjármálakerfi sem þróaðist hér og í Evrópu sem varð okkur að lokum að falli. Inn í þetta umhverfi er Samfylkingin nú að draga okkur, að vísu með fulltingi Vinstri grænna. Er það þetta sem við þurfum nú að dæla hundruðum milljóna í — umsókn að bandalagi sem riðar til falls, eins og íslensku bankarnir á sínum tíma? Evrópusambandið er hugmyndafræðilega gjaldþrota og nokkur ríki sambandsins eru fjárhagslega gjaldþrota þó að ekki sé búið að tilkynna það opinberlega, en það sjá það allir sem sjá vilja að svo er.

Ríkisbankarnir voru einkavæddir á grundvelli Evrópureglna í upphafi síðustu aldar. Við sjáum nú hvaða afleiðingar það hefur þegar ríki afsalar sér löggjafarvaldi eins og gert var með EES-samningnum. Alþingi tapaði yfirsýninni á lagasetningu og þær eru óteljandi reglugerðirnar og tilskipanirnar sem Evrópusambandið hefur sturtað yfir löggjafann. Það leiðir hugann að því hvers vegna Alþingi er ekki styrkt faglega og fjárhagslega í kjölfarið á samþykkt laganna um Evrópska efnahagssvæðið. Löggjafinn þurfti á því að halda þá að hafa þol og styrk til að takast á við breytt umhverfi lagasetningar.

Hví er Alþingi og löggjafarvaldið ekki varið betur? Ég er þess fullviss að óvönduð lagasetning undanfarinna ára á hlut í því hruni sem við stöndum frammi fyrir. Hér fara mál í gegn sem vitað er fyrir fram að standast ekki stjórnarskrá. Alþjóðasamningar voru á gráu svæði gagnvart gildandi lögum. Dómsmál undanfarinna ára sanna það og samanburður við Norðurlöndin varðandi þetta er sláandi okkur í óhag.

Eftir að ég tók sæti á Alþingi hef ég komist að raun um að innviðir Alþingis sem stofnunar eru fúnir. Það er með ólíkindum hvað vantar upp á faglega lagasetningu og nefndasvið Alþingis skilar ekki því starfi sem ætlast er til sem ráðgefandi aðili við lagasetningu. Alþingismenn eiga að koma úr öllum starfsgreinum samfélagsins. Það er ekki hægt að aðeins einsleitur hópur lögfræðinga með sérfræðiþekkingu á lagasetningu séu alþingismenn. Ég geri því ríka kröfu til þess að Alþingi sé ráðgefandi fyrir þingmenn og aðstoði þá á faglegan hátt í störfum sínum, því að í raun er það hlutverk stofnunarinnar. Starfsmenn Alþingis eiga að starfa fyrir alþingismenn. Lögfræðisvið Alþingis þarf að stórefla. Yfirstjórn þingsins verður að taka þessi orð til sín. Hví er löggjafinn ekki varinn af starfi lagaprófessora sem hafa fasta stöðu við þingið? Hví er ekki starfandi lagaráð eða lagaskrifstofa sem hefur það hlutverk að lesa yfir lagafrumvörp sem lögð eru fram? Hér þarf að taka til. Hér er verk að vinna. Í raun er búið að flytja lagasetningarvaldið út til ráðuneytanna í skjóli langrar hefðar meirihlutastjórna. Þetta er algjörlega óásættanlegt. Skömmu eftir hrunið sagði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir úr þessum ræðustól að þingmenn upplifðu sig eins og kassadömur. Var þingmaðurinn að vísa til þess að Alþingi væri eins og afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins og tek ég undir þessi orð þingmannsins.

Þessi staða Alþingis er algjörlega óásættanleg og í raun óþolandi. Alþingi má ekki stunda kranalagasetningu og samþykkja frumvörp nánast órædd frá aðilum úti í bæ. Ekkert hefur breyst þrátt fyrir allsherjarhrun heillar þjóðar. Engin endurskoðun hefur átt sér stað í starfsháttum Alþingis. Engin ný vinnubrögð hafa verið boðuð. Áfram er keyrt á gömlu vinnubrögðunum. Við verðum að læra af mistökunum og fara í naflaskoðun, líka hér á Alþingi. Við verðum að hafa kjark og þor til að horfast í augu við vandamálin og viðurkenna brotalamir stjórnkerfisins, stjórnmálaflokkanna og stjórnsýslunnar allrar.

Ég heiti því að þegar Framsóknarflokkurinn fer í ríkisstjórn á ný mun ég beita mér fyrir því að innviðir Alþingis verði styrktir og Alþingi verði það löggjafarvald sem því er ætlað í stjórnarskrá. Fyrsta skrefið í þá átt er frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis sem ég hef nú þegar lagt fram ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar. Fyrsta umræða hefur þegar farið fram um það.

Það eru fleiri atriði sem ég hefði viljað komast yfir í þessari ræðu, en 10 mínútur líða hratt, þannig að ég tek líklega til máls í 2. umr. til að klára þau mál sem ég er hér með. Mig langar til að benda forseta á það og þingmönnum öllum að Framsóknarflokkurinn styður þær lýðræðisumbætur sem nú liggja fyrir þinginu varðandi þau stjórnarfrumvörp sem snúa að stjórnlagaþingi. Eins og alþjóð veit studdi Framsóknarflokkurinn minnihlutastjórnina falli gegn því að stjórnlagaþingið mundi komast á dagskrá til að búa til nýja stjórnarskrá. Það var svikið eins og flestir vita. Framsóknarflokkurinn styður það persónukjörsfrumvarp sem nú liggur fyrir og Framsóknarflokkurinn styður það þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp sem nú liggur fyrir, rammalög um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Ég skora á ríkisstjórnina að koma þessum málum á dagskrá og útkljá þau á þessu þingi svo að þau verði að lögum. Það er mikilvægt (Forseti hringir.) til þess að við náum að fóta okkur í upprisunni á ný.