138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[17:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hún var nokkuð málefnaleg en hv. þingmaður féll ekki í þá gryfju að reyna að breyta fortíðinni, söguskýringunni, nema kannski að einu leyti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því en það er varðandi meinta skattalækkun sem farið var í á sínum tíma.

Niðurstaðan af skattalækkuninni var sú að tekjur ríkissjóðs, þ.e. álögur ríkissjóðs, hvort sem mælt er í krónum, verðtryggðum krónum eða hvernig það er, jukust stórlega sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, á alla mælikvarða, sem álögur á atvinnulífið og heimilin. Nú er spurning mín til hv. þingmanns: Þegar fyrirtæki og landsmenn allir borga miklu meira til ríkisins, er það skattalækkun? Því hafa margir sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið fyrir skattahækkun. Hvort er rétt?

Það sem gerðist var nefnilega að skattstofnarnir stórjukust. Þeir jukust svo mikið að lækkandi skattprósentur gáfu ríkissjóði mikið hærri tekjur, svokölluð Laffer-áhrif. Á sama tíma voru útgjöld ríkissjóðs stóraukin til velferðarmála. Þau hækkuðu um 60–70%, þannig að það mætti segja að á þessum 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins — sumir segja að hann hafi ríkt einn en það var náttúrlega ekki rétt — hafi mátt flokka hann undir velferðarflokk á þessum mælikvarða, fyrir utan að hann hækkaði laun í landinu um 60–70% umfram verðlag. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta skattahækkun eða skattalækkun?