138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:26]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar fyrr í dag var frábær ræða. Hún var full af því sem maður getur sagt í fáum orðum, kærleika og almennum skynsamlegum sjónarmiðum. Það er ekki oft sem maður hefur hrósað hv. þingmanni fyrir þann stíl, þó að hann hafi aldrei leynt slíku í brjósti sínu eða málfari. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á það að Íslendingar ættu að bregðast við af skynsemi, nota brjóstvitið og vinna þannig til árangurs fyrir íslenska þjóð. Í rauninni lagði hv. þm. Árni Þór Sigurðsson áherslu á atriði sem maður hefði getað vænst hvort sem væri hjá Þorgeiri Ljósvetningagoða eða Njáli á Bergþórshvoli. Það er vel þegar menn fjalla um slíkt mál sem hér er til umræðu að þeir taki þann pól í hæðina vegna þess að það hlýtur að vera best til heilla fyrir alla að taka það jákvæða út og horfa til framtíðar, þó að menn þurfi vissulega að læra af reynslunni og draga ályktanir af því.

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar vekur kannski sérstaka athygli á þeim veikleika í íslenskri stjórnsýslu síðustu áratuga að velja að öllu jöfnu hina þægu til metorða og stýringu ráðuneyta til að mynda. Hinir þægu stuðla ekki að eðlilegri gagnrýni og krufningu mikilvægra mála. Það mætti nefna ótal mörg dæmi þess á undanförnum áratugum í íslenskri stjórnsýslu. Í stuttu máli mætti segja að menn hafi lagt áherslu á klíkur en ekki kraftmikla stjórn þar sem krufið er til mergjar hvað sé best þegar upp er staðið.

Lögfræðingar, endurskoðendur, sérfræðingar og embættismenn eru ekki formlega hengdir upp á vanrækslusnaga í skýrslunni en fá óbeint falleinkunn vegna sérhagsmunapots. Þetta er partur af dæminu sem við þurfum að skoða kirfilega á næstu missirum þegar menn ganga vonandi til verka með það að sjónarmiði að læra af reynslunni.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er líklega besta meðalið sem íslenska þjóðin hefur fengið síðan Hallgrímur Pétursson orti Passíusálmana. Svo segir mér hugur að hún rói og veki skilning og um leið umburðarlyndi sem við þurfum á að halda til að standa saman sem þjóð. Skýrslan undirstrikar að Alþingi þarf fyrst og fremst gott fólk, heiðarlegt dugmikið og áræðið og það kemur því ósköp lítið við sem kallað er að vera gáfaður. Ég hef svo oft í ræðustól Alþingis, virðulegi forseti, haft orð á því að ekki sé nóg að kunna að babla á bók og ég held að skýrslan kannski undirstriki að það er ekki allt fengið með því. Reynslan, þekkingin, mannauðurinn og mannvitið er það sem dugar okkur best, Íslendingum, og á að duga okkur best inn í framtíðina.

Þegar við Íslendingar sigldum beggja skauta byr í gegnum erfið tímabil einkenndist samfélagið af drenglyndi og umburðarlyndi, sáttfýsi og æðruleysi sem Íslendingar áttu nóg af, bláfátækir. Okkur er því engin vorkunn í dag. Við skulum rækta gömlu íslensku hefðirnar og fara okkur að engu óðslega.

Íslenska krónan er ekki vandamál nema henni sé illa stjórnað. Íslensku bankarnir eru ekki vandamál nema þeim sé illa stjórnað. Bankarán gömlu kúrekamyndanna eru ekki einu sinni sýnishorn af bankaráni allra stóru íslensku bankanna fyrir hrunið, ekki einu sinni sýnishorn. Stöðvun fjölmiðlalaganna var stórslys fyrir Ísland. Afleiðing þess varð m.a. sú að harðsvíruðustu útrásarvíkingarnir tóku yfir stjórn Íslands á árunum 2006–2008. Sjálf ríkisstjórnin varð að fótataki í fjarska, hún stjórnaði ekki landinu.

Helmingur bankalána á Íslandi var til eins fyrirtækis, Baugs, og svo dettur einhverjum nýtískuskilanefndarmönnum það í hug að það gangi upp að veita gömlu bröskurunum sem vanvirtu og hirtu peninga íslensku þjóðarinnar forgang að áframhaldandi rekstri fyrirtækja sem þeir notuðu sem blóraböggla til að hirða peninga Íslendinga í eigin þágu. Svo einfalt er málið. Hvað lagði eigandi skuldugasta fyrirtækis landsins, þúsund milljarða skuldakóngurinn, mesta áherslu á í öllum sínum rekstri? Að halda fjölmiðlinum — að halda fjölmiðlinum og hafa tök á honum. Virðulegi forseti. Til hvers skyldi það hafa verið? Það þarf ekki að ræða mikið um það.

Virðulegi forseti. Háttvirtir þingmenn. Sóðaskapur og rányrkja íslensku bankamannanna undanfarin ár er einsdæmi í heiminum. Ekki er enn þá búið að smúla dekkið í þeim efnum. Það er margt gruggugt enn þá í flór bankanna.

Það eru atriði eins og ég nefndi, stöðvun fjölmiðlalaganna, sem hleyptu fjandanum lausum. Það eru atriði eins og við erum að deila um á þinginu daglega á undanförnu missiri, fyrningarleiðin, stöðvun virkjana í neyðarstöðu, hærri skattar, heimili, atvinnulíf. Þetta eru allt mál sem við verðum að takast á við og finna þann farveg að sátt sé um þau, að það sé ekki valdbeiting heldur víðtæk sátt. Aldrei er hægt að reikna með 100% sátt en hún þarf að vera víðtæk. Það eigum við að geta með því að ganga eins fordómalaust til verka og kostur er.

Virðulegi forseti. Allir þingmenn gera sér fullkomlega grein fyrir því að mínu mati að við ætlum að halda áfram. Við ætlum ekki að gefast upp, við erum sjálfstæð lítil þjóð sem ætlar að halda áfram. Þó að menn hafi skiptar skoðanir um tengingu við önnur stórveldi, viðskiptasambönd og annað, látum það liggja milli hluta, en við hljótum flest að trúa því að við verjum sjálfstæði íslenskrar þjóðar. Það er grundvallaratriði númer eitt, tvö og þrjú.

Við þurfum að halda áfram. Við þurfum að taka mið af hinum fjölmörgu mistökum síðustu ára, taka mið af því sem reyndist okkur vel áður en græðgin og ruglið í bankakerfinu setti allt úr skorðum. Við þurfum ugglaust að vinna að því að íslenskir fjölmiðlar segi frá öðru í dægurtímum og á kvöldstundum en tískumyndum, efni úr tískuheiminum, af kvikmyndaleikurum og fjölmiðlamönnunum sjálfum og fjalli svolítið um venjulegt fólk sem vinnur verkin úti í þjóðfélaginu. Við þurfum að fara svolítið til baka í dagskrárgerð fyrir íslensku þjóðina sem er ekki bara gervimennska og sýndarveruleiki.

Við Íslendingar verðum aldrei eitt af stórveldunum. Við þurfum ekki að vera stór, það er ekki endilega samræmi á milli þess að vera stór og vera mikill. Við eigum að vera metnaðarfull fyrir íslenska þjóð, að hún verði metin dugmikil, heiðarleg, áræðin og lífsglöð. Tökum höndum saman, sýnum tillitssemi, fordómaleysi, metnað til árangurs fyrir okkar fólk, okkar þjóð. Öll góð mál eru góð, hvaðan sem þau koma, virðulegi forseti.