138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú ræðum við langþráða skýrslu um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Skýrslan er mikil að vöxtum og það sem ég hef kynnt mér af henni er afar vel unnið verk, skýrt fram sett, beinskeytt og skrifað á mannamáli. Mér virðist ég geta lesið það út úr þessari skýrslu að strax við einkavæðingu bankanna árin 2002–2003 hafi tónninn verið gefinn um hvernig skipulag eignarhalds varð á íslenskum fjármálamarkaði. Þann tón sló ríkisstjórnin sem þá sat við völd, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hún hélt áfram að slá þann tón og virðist hafa trúað því að hann væri hinn eini sanni tónn, þótt á það væri bent að hann væri í besta falli rammfalskur. Náin tengsl milli stjórnmála- og fjármálamarkaðar var leiðarstefið í þessum tóni og eftirlitsstofnanir sungu með, þótt af og til væri reynt að trufla þennan samstillta kór og má þar benda á margítrekuð innslög núverandi forsætisráðherra og margra annarra.

Í 3. kafla skýrslunnar er talað um mikilvægi fjármálastofnana fyrir hvert samfélag og sagt að hagsæld einstakra ríkja sé háð því hvernig staðið sé að þeim stofnunum. Það sem þarf að vera í lagi til að þetta fjöregg samfélaga gegni eiginlegu hlutverki sínu er t.d. skýrt eignarhald, eftirlit með bönkum, samkeppni þeirra á milli, eftirlit sem þeir veita lántökum sínum, kerfislegt mikilvægi og traust samfélagsins. Einmitt þetta mikilvægi bankanna fyrir samfélagið átti að kveikja á öllum viðvörunarbjöllum eftirlitsaðila og stjórnvalda þegar varnaðarorð féllu um að bankakerfið væri að vaxa gjaldmiðli og þjóðarbúi yfir höfuð. Því miður voru bjöllurnar yfirgnæfðar með partítónlist útrásarinnar þar sem eigendur og stjórnendur bankanna stigu villtan dans með tilheyrandi lófataki aðila sem áttu að vera á viðvörunarbjöllunum.

Það væri hægt að tala um þetta góða rit með sorglega innihaldinu í marga daga en ég ætla að einbeita mér sérstaklega að kaflanum um launa- og hvatakerfi bankanna. Það umfjöllunarefni vel ég mér vegna þess að ég hef verið mjög upptekin af því atriði í nýju frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki. Mér finnst að þar þurfi að stíga afar varlega til jarðar til að traust almennings á bankakerfinu verði endurheimt.

Í 2. kafla skýrslunnar er að finna ágrip um meginniðurstöðu skýrslunnar og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Skýringar á falli Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. er fyrst og fremst að finna í örum vexti þeirra og þar með stærð þeirra þegar þeir féllu í október 2008. Efnahagur og útlán bankanna uxu fram úr því sem innviðir þeirra þoldu. Utanumhald og eftirlit með útlánum fylgdi ekki eftir útlánavextinum. […] Almennt séð samrýmist svo mikill og áhættusamur vöxtur ekki langtímahagsmunum traustra banka. Hins vegar voru sterkir hvatar til vaxtar innan bankanna. Þeir fólust meðal annars í hvatakerfum bankanna og einnig í mikilli skuldsetningu stærstu eigenda.“

Á undanförnum árum hefur verið ákveðin krafa um að tengja saman hag atvinnurekenda og starfsmanna fyrirtækja. Við þekkjum vel til slíkra kerfa í sjávarútvegi en þar er auðvelt að skilgreina nákvæmlega hluti aðila. Þessi umræða er hluti af svokölluðum umboðsvanda þar sem rætt er hvernig tryggja megi sem best að stjórnendur vinni verk sín og skili vinnuveitendum sínum bestum hugsanlegum árangri. Árangurstenging launa er aðferð sem notuð hefur verið til að tengja saman hag starfsmanna og eigenda og draga þannig úr þessum umboðsvanda. Árangurstenging er yfirleitt sérstök umbun fyrir að vinna fyrir fram skilgreint verk eða ná tilteknum árangri, t.d. ákveðinni rekstrarafkomu. Hönnun hvatakerfa sem samtvinna hag eigenda og starfsmanna á hagkvæman átt er vandasöm. Starfsmenn hafa oftast mun meiri þekkingu á fyrirtækinu en eigendur og því er ákveðin hætta á því að þeir nýti þá yfirburði sína til að hafa áhrif á árangursmælingar, hagræði tölum, noti peninga fyrirtækisins til að hafa áhrif á markaðsverð eða vinni verk sín þannig að þeir uppfylli kröfur um árangurstengdar greiðslur í bráð en grafi undan hagsmunum hluthafanna í leynd. Rannsóknir sýna að árangurstenging launa kemur ekki í stað eftirlits með stjórnendum. Þrátt fyrir hvatakerfi er hætta á sjálftöku launa ef eftirlit er of lítið.

Algengt fyrirkomulag árangurstengingar launa er að veita umbun annars vegar til skamms tíma og hins vegar til langs tíma. Skammtímabónusar eru gjarnan tengdir uppgjörum tiltekinna starfseininga en langtímabónusar eru oft kaupréttarsamningar. Fjármálafyrirtæki hafa notað hvatakerfið um árabil. Fram að einkavæðingu virðist það hafa verið í eðlilegri stærð en yfirlit yfir laun svokallaðra lykilstarfsmanna bankageirans sem birtist í skýrslunni telst ekki af eðlilegri stærð í hugum venjulegra Íslendinga. Fjármálafyrirtækin gáfu út ákveðnar leiðbeiningar um það hvernig hvatakerfið ætti að vera. Þannig var talað um hagsaukakerfi fyrir forstjóra Glitnis sem var ætlað að tengja laun hans við árangur í starfi. „Framtak“ var sérstakt kerfi fyrir stoðdeildir bankans þar sem skilgreind upphæð átti að greiðast þegar ákveðnum skilyrðum var náð. Þá var hjá Glitni leyft að reiða af hendi sérstakar bónusgreiðslur sem réðust af huglægu mati stjórnenda á vinnuframlagi, óháð afkomu. Alls kyns viðaukar við ráðningarsamninga tíðkuðust. Sumir þeirra komu hvergi fram, enda sér maður fyrir sér hugljúfan vangadans stjórnenda og eigenda þar sem hvor stingur vænni fúlgu í vasa hins meðan á atlotum stendur. Áhættusæknin leikur undir.

Hjá Landsbankanum er til lítið ódagsett skjal sem heitir: „Meginsjónarmið með árangurstengdu launakerfi Landsbankans.“ Markmið þessara meginsjónarmiða var að hlutfall kaupréttar í heildarlaunum ríkisstarfsmanna yrði hlutfallslega hærra en hlutfall bónusa. Gert var ráð fyrir því að bónusgreiðslur yrðu almennt tengdar afkomu bankans í heild en einnig var tekið tillit til árangurs við starfseiningar. Bankastjóri og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs áttu að sjá um mat á þessum þáttum. Rannsóknarnefndin fann ekki með tölfræðilega marktækum hætti tengsl á milli tekna og bónusgreiðslna. Ekki var hægt að sjá að launin væru árangurstengd í þeim skilningi að auknar tekjur leiddu til hærri bónusgreiðslna með kerfisbundnum hætti. Það vakti sérstaka athygli nefndarinnar að greidd var hærri bónusupphæð til verðbréfamiðlunar haustið 2007 en nam tekjum sem sviðið skapaði á sama tíma. Hjá Landsbankanum var stiginn annar vangadans, eða var það ekki aðaleigandinn sem skuldaði bankanum mest?

Hjá Kaupþingi fengu 10% starfsmanna 50% útgreiddra lána árið 2007. Það ár námu heildarlaun forstjórans 159-földum launum meðalstarfsmanns. Hið opinbera kaupaukakerfi Kaupþings var ekki ólíkt kaupkerfum hinna bankanna. Í tilteknum samskiptum stjórnenda Kaupþings kemur fram afstaða um hvernig binda eigi saman hag hluthafa og stjórnenda. Stjórnendur eiga að geta innleyst áhættulausan hagnað sinn með því að leggja stöðugt meira á bankann en hluthafa. Þeir leggja til að eignarhaldsfélög þeirra taki við bréfum sem þegar hafa verið veðsett í bankanum og fái síðan enn meiri lán frá bankanum.

Rannsóknarnefndin telur að ýmislegt sem rekja megi til starfs- og launasamninga hafi verið til þess fallið að hvetja til aukinnar áhættusækni til skamms tíma og þar með til útlánastefnu sem gat orðið bankanum skaðleg. Hrunavangadansinn var í tríói, karlatríói. Kaupþing kemur bara síðast en ekki síst. Fyrir venjulegan Íslending sem berst við að lifa af, stendur sig vel í sínu starfi, borgar skatta sína og skyldur og notar þjónustu bankanna í góðri trú er það ofar skilningi að einhver hafi 21 milljón, 36 milljónir eða 49 milljónir í mánaðarlaun. Venjulegur einstaklingur er með um 300.000 kr. á mánuði, það gerir 3,6 millj. kr. í árstekjur og 126 millj. kr. á starfsævinni ef viðkomandi nær að vera á vinnumarkaði í 35 ár. Ég er viss um að þessi einstaklingur getur alveg sætt sig við að bankastjórar séu með talsvert hærri laun en hann en þau verða að vera skilgreind og ákveðin eftir fyrir fram ákveðnum reglum sem fylgt er fast eftir. Sú hálaunastefna sem rekin var í bönkunum frá 2002 er þó út úr öllu korti og í henni felst bullandi spillingarhætta. Hættum hér, afnemum kauprétt og skilgreinum nákvæmlega hvað á að vera falið í kaupauka um leið og við breytum áherslum í þá átt að það er ekki merkilegra að vinna með peninga en fólk.

Yngsta dóttir mín er að þjálfa hest undir handarjaðri föður síns og freistar þess að komast með hann á landsmót í sumar. Ég fylgdist með henni um daginn. Verkefnið var að fá hestinn til að bera sig vel, slaka á um leið og hún nýtti allt sem í honum var. Til þess þurfti unglingurinn minn að hvetja um leið og hún hamlaði. Til að hesturinn væri frjáls og liði vel þurfti hún að nota ábendingar sem hvöttu hann fram en hömluðu um leið svo hesturinn ryki ekki með hana. Með þessum æfingum fer hesturinn að bera sig vel. Verið er að nota aðferðir sem nýta hestinn um leið og honum líður vel. Bæði verða örugg því þetta eru öruggar aðferðir sem líklegar eru til að skila árangri. Það er líka hægt að hugsa um það eitt í reiðmennsku að láta hestinn líta vel út en til þess eru notaðar aðferðir sem fara illa með bak og lund hestsins. Sú aðferð getur skilað skammtímaárangri sem lítur vel út. Framfæturnir tifa hátt í loft og það getur blekkt áhorfandann og jafnvel dómarann. Burðaraðferðir þarf að nota í bankakerfinu sem er samfélagi okkar lífsnauðsynlegt. Þar þarf að hvetja til vaxtar og burðar um leið og hömlunin birtist í skýrari reglum og eftirliti svo við missum ekki stjórn á því. Þá fáum við þann alvöru burð sem þarf í fjármálakerfið okkar en ekki óheilbrigðan sýndarveruleika.