138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég og hv. þm. Pétur Blöndal höfum verið sammála um eitthvað þá er það það að efla megi þingræðið, það á þó ekki bara við um síðasta eitt ár, að ég hygg, heldur hefur þetta verið langvarandi þróun hér á þingi. Ég vil minna á að síðastliðið ár hafa þó fleiri þingmannamál fengið brautargengi en allmörg ár þar á undan, þannig að við skulum nú ekki alveg (Gripið fram í.) horfa á þetta sem eitthvert svartnætti, heldur held ég að við öll, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, höfum mörg tækifæri til að efla þennan þátt.

Ég geri ekki mikið úr orðum um kattasmölun en hins vegar í þeirri grein eftir Vilhjálm Árnason, sem ég vísaði til áðan, liggur það fyrir að við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir flokksræði sem og tækniræði eða tæknikratíu og fleiri tendensum eða tilhneigingum sem við sjáum almennt í lýðræðisfyrirkomulögum. Það á við um alla flokka, svo ég nefni það. Það á við um hvern þann flokk getum við sagt sem starfar lengi. Það er ávallt hætta (Forseti hringir.) á að flokkshagsmunir skipi of ríkan sess. Hins vegar held ég að þar beri hver og einn þingmaður auðvitað ábyrgð.