138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:42]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er mitt mat eftir það sem ég hef lesið af skýrslunni, að hún renni mjög sterkum stoðum undir það að hin veika staða Alþingis núna, sem nýtur trausts aðeins 13% þjóðarinnar, stafi af því að Alþingi, sem er kraftbirtingarmynd lýðræðis í landinu, hafi ekki staðið sig í stykkinu. Mín upplifun hérna á Alþingi sem óháður þingmaður er að Alþingi sé meira og minna í gíslingu stjórnmálaflokka sem ekki er stýrt á lýðræðislegan hátt heldur með foringjavaldi. Ég tel að hluti af endurreisninni, og kannski mikilvægasti hluti hennar, sé að endurheimta virðingu og traust Alþingis meðal þjóðarinnar og það geri Alþingi sjálft með því að hver einasti fulltrúi sem á því situr endurskoði og rifji upp þá staðreynd að umboð hvers alþingismanns kemur frá þjóðinni. Hollusta hans á að vera við þjóðina fyrst og fremst en ekki við þann stjórnmálaflokk eða foringja sem viðkomandi fylgir í megindráttum.