138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég held að það sé margt sem sameinar okkur frekar en sundrar þegar við tölum um breytt vinnubrögð á vettvangi þingsins. En það þarf líka að breyta hugarfarinu sem er hér inni og þá sérstaklega hjá þeim sem völdin hafa í landinu. Þá ætla ég að tala um yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra þegar hún ræddi um að samstarfið við Vinstri græna væri eins og að smala köttum sem er náttúrlega óvinnandi vegur. Þar erum við einmitt komin að hugsuninni um foringjastjórnmál. Af því að ákveðinn hluti Vinstri grænna vill ekki þóknast hæstv. forsætisráðherra er honum líkt við ketti. Þessi umræða er ekki þingmönnum bjóðandi.

Við erum akkúrat að upplifa þessi foringjastjórnmál hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Það er ekkert óeðlilegt, þau eru búin að vera á Alþingi Íslendinga samanlagt í yfir 60 ár, þau þekkja ekki önnur vinnubrögð. (VigH: Rétt.) Hvar er ferski andblærinn sem átti að fylgja nýjum þingmönnum sem komu inn árin 2007 og 2009? Hvað hugsa þeir stundum þegar þeir sitja á þingflokksfundum og hlusta á ræður þessara foringja sem ætlast til að þeim sé hlýtt í einu og öllu? Ég ætla bara að hæla Vinstri grænum eða þeirri deild innan Vinstri grænna sem hefur staðið í lappirnar í Icesave-málinu. (Gripið fram í.) Forustumenn ríkisstjórnarinnar fengu þar aðeins á baukinn og við erum með þessum vinnubrögðum búin að spara þjóðinni tugi eða hundruð milljarða króna. Við skulum halda áfram að vinna með þessum hætti þannig að lýðræðið hér virki, að tveir aðilar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, geti ekki bara gefið þingmönnum sínum einhverjar fyrirskipanir sem þeir hlýði í blindni. Við þurfum að yfirgefa þessa tíma. Það er kannski þessi hugsun og þessi vinnubrögð sem hafa leitt okkur á þann stað sem við erum á í dag. Þessu viljum við breyta og ég finn að það er viðtekin sátt um það hér inni. (Forseti hringir.) Við þurfum bara að vera óhrædd við það að breyta.