138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna skilur svo rækilega á milli hugmyndafræði og pólitískrar sannfæringar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Guði sé lof.) Fé sem er í eigu þjóðarinnar er ekki án hirðis. Fé sem er í eigu samfélagsins eða samfélagshópa er ekki án hirðis. Landssíminn var á meðan hann var í eigu þjóðarinnar ekki án hirðis. Raforkukerfið er að vísu í eigu þjóðarinnar að meginhluta til en þjóðin er besti hirðirinn og það að tala niður til þjóðarinnar með þeim hætti að ef hún eigi eignir séu þær án hirðis — hún situr að vísu núna uppi með skuldirnar sem eru afleiðing þeirrar stefnu sem hv. þm. Pétur Blöndal var að lýsa. Menn gripu til sín eignir og sögðu eins og hv. þingmaður: Þær eru án hirðis. Sem þær voru ekki. Af hverjum voru þeir að taka þessar eignir? Af íslensku samfélagi, af íslenskri þjóð. Hverju skila þeir nú til baka sem töldu sig vera að sækja fé án hirðis? Jú, hundruð milljarða króna skuldum og þær skuldir leita að hirði. Hver verður að vera hirðir þeirra? Jú, íslenska þjóðin geldur fyrir þessa hugsun hv. þingmanns.