138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar fyrst að spyrja hv. þingmann hvar maður geti gengið í þetta áhugaverða félag sem hann nefndi í upphafi ræðu sinnar. Ég vil einnig benda þessu áhugamannafélagi á það sem utanríkisráðherra hefur verið að segja í fjölmiðlum síðustu daga.

Ég hef ekki skafið utan af því að ég tel að ég hafi gert ákveðin mistök í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Ég hef sagt það. Ég tel að ég hafi verið allt of aðgæslulaus varðandi það að efnahagsmál væru tekin til umræðu í ríkisstjórninni. Þó kemur það fram í skýrslu rannsóknarnefndar að í þau skipti sem það var gert svo að einhverju næmi var það m.a. vegna óska minna og núverandi hæstv. samgönguráðherra, það kemur skýrt fram í skýrslunni.

Að öðru leyti hef ég líka sagt að minn flokkur getur ekki hvítþvegið sig af þessari þróun. Ég hef sagt það alveg umbúðalaust að ég tel að við höfum í allt of ríkum mæli líka látið heillast af markaðnum. Við dönsuðum allt of mikið með honum. Að þessu leyti til vorum við eins og helftin af samfélaginu. Þetta hef ég sagt í umræðum um þessi mál og hv. þingmaður ætti að benda sínu góða áhugamannafélagi á það.

Að því er varðar þá umræðu sem hefur orðið um einkavæðinguna má hv. þingmaður kannski virða utanríkisráðherra núverandi það til vorkunnar að fyrir kosningarnar 2003, sem skýrslan gerir að umræðuefni, sagði ég að þetta væri eiturblanda, þetta tvennt, að saman færi hækkun á húsnæðislánunum og skattalækkun. Ég kallaði það tifandi tímasprengju. Fyrir það var ég hæddur og spottaður hér í þinginu árum saman þannig að það er kannski í lagi þó að ég rifji þetta aðeins upp.

Ég kom hér upp fyrr í dag aðallega til þess að þakka hv. þingmanni og varaformanni Framsóknarflokksins fyrir að hafa sagt það sem hann sagði vegna þess að ég tel að menn eigi að nálgast umræðuna með þeim hætti. Ég er ekkert að draga eitt eða annað undan í fari (Forseti hringir.) míns flokks og gæti haldið áfram þessari upptalningu ef mér entist til þess tími.