138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki vil ég segja afdráttarlaust já við fyrri spurningu hv. þingmanns, ég vil ekki tala um að það hafi verið gríðarleg mistök að samþykkja ekki það fjölmiðlafrumvarp sem þá lá fyrir. Ég bendi hins vegar á það að menn vildu samþykkja ákveðnar takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum en ekki með þeim ofsafengna hætti sem birtist í því frumvarpi.

Að því er lýtur að seinni spurningu hv. þingmanns segi ég: Það er hugsanlegt. Mér hefur líka orðið tíðhugsað um þetta. Ég er þeirrar skoðunar t.d. að það hafi verið ýmislegt sem menn hefðu átt að gera á þessum árum. Í flokkum eins og Samfylkingunni, sem eru stórir, leitandi, eins og flokkurinn var þá, nýstofnaður á þessum árum, koma stundum upp mismunandi skoðanir á hlutunum. Það er alveg ljóst að innan Samfylkingarinnar vógust á mismunandi skoðanir, mismunandi hugmyndafræði. Annars vegar sú sem kannski má segja að hafi verið sótt til sigursælla jafnaðarmannaflokka á meginlandinu, og hv. þingmaður kannast líkast til við undir heitinu þriðja leiðin, blairisminn. Hins vegar önnur tegund jafnaðarstefnu, sem á þeim tíma var bent á að væri t.d. aðall franskra sósíalista, sem hefði í för með sér meiri ríkisafskipti.

Upp úr miðbiki þessa áratugar taldi ég, og ýmsir fleiri í mínum flokki, að nauðsynlegt væri að skoða mjög hugmyndir Styrmis Gunnarssonar, um að setja lög um eignatengsl og skorður við eignarhaldi og krosseignarhaldi á fyrirtækjum hér á landi. Ég tel að það hafi verið mistök af Samfylkingunni að fylgja því ekki eftir.