138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

samstarfsyfirlýsing við AGS.

[10:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef allt gengur að óskum verður mál Íslands tekið fyrir á morgun hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samkvæmt starfsreglum sjóðsins verða síðan gögn, starfsmannaskýrslan, samstarfsyfirlýsingin og fleiri tengd gögn gerð opinber og aðgengileg á heimasíðu sjóðsins eftir fyrirtökuna. Það er farið í einu og öllu að starfsreglum sem að samstarfi lýtur í þessum efnum. Skjölin eru trúnaðarmál á meðan þau eru til dreifingar og skoðunar hjá fulltrúum í stjórn sjóðsins. Þetta eru vinnureglur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem markað hafa þetta samstarf af okkar hálfu frá upphafi og nákvæmlega eins var farið með fyrstu samstarfsyfirlýsinguna og tengd gögn í nóvember 2008 og aftur í október 2009.

Samstarfsyfirlýsingin nú er fyrst og fremst uppfærsla á samstarfáætluninni, efnahagsáætluninni. Segja má að hakað sé við það sem þegar hefur náð fram að ganga og síðan eru sett viðmið varðandi önnur verkefni. Við getum tekið það sem dæmi að endurreisn eða endurfjármögnun stóru viðskiptabankanna þriggja er nú frágengin og þar með hverfur umfjöllun um hana út úr samstarfsyfirlýsingunni en því miður er ekki enn að fullu lokið endurskipulagningu sparisjóða og minni fjármálastofnana, þannig að inn í samstarfsyfirlýsinguna kemur orðalag um hvar það mál er á vegi statt og hvenær stefnt er að því að því sé lokið, svo dæmi séu tekin um að hér er á ferðinni tiltölulega einföld uppfærsla á fyrirliggjandi efnahagsáætlun og samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er vikið að hinu óleysta Icesave-máli í þessari samstarfsyfirlýsingu og ég get fullvissað menn um að það eru ekki á nokkurn hátt gefin þar fyrirheit eða lofað einu eða neinu sem gengur umfram það sameiginlega samningsumboð sem stjórnmálaflokkarnir í landinu komu sér saman um í janúarmánuði enda var lokatextinn (Forseti hringir.) á þeim hluta yfirlýsingarinnar, 20. lið hennar, frá honum var gengið í samráði við formann samninganefndar Íslands og fleiri samninganefndarmenn.