138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

vandi ungs barnafólks.

[10:58]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér tal um sparðatíning og ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér þau gögn sem liggja til grundvallar niðurstöðu skýrslu Seðlabankans. (Gripið fram í.) Það er nokkurn veginn sami fjöldi í vanda núna og var í upphafi árs 2008 og það þrátt fyrir að í millitíðinni hafi atvinnuleysi tífaldast og verðlag hækkað um 35%. Það held ég að segi meira en mörg orð um það hversu vel hinar almennu aðgerðir hafa dugað. (Gripið fram í.) Til viðbótar kynni ég hér að við munum koma með almennar viðbótaraðgerðir sem lúta að bílalánunum og munum þar af leiðandi enn draga úr þessum fjölda. Þá eru ótaldar þær lausnir sem þegar eru komnar til framkvæmda og er ekki tekið tillit til í niðurstöðum Seðlabankans hvernig þær hafa nýst einstökum fjölskyldum. Það er alveg ljóst að væntanlega eru um 2.000 fjölskyldur þegar komnar fyrir vind vegna þess að þær hafa nýtt sér þau úrræði sem þegar hefur verið komið á. Þessi úrræði erum við að styrkja og við munum koma enn fleira fólki hraðar í gegnum þær lausnir á næstu mánuðum. Ég treysti á Alþingi (Forseti hringir.) til að koma þessum málum nú hratt og örugglega í gegn þannig að það þurfi ekki að standa á löggjöf í þessu efni. Við erum að vinna (Forseti hringir.) í þessum málum af fullum krafti. Það þarf ekki að setja á aðgerðaáætlun vegna þessa málaflokks, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, því að hún er í gangi og eftir henni hefur verið unnið lengi þó að hv. þingmaður (Forseti hringir.) virðist ekki hafa orðið var við það.