138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

störf sérstaks saksóknara og flutningur lögheimila.

[11:07]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmenn í þessum sal hafa væntanlega verið að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á undanförnum dögum. Því miður er skýrslan á köflum reyfarakennd og lýsir miklu ábyrgðarleysi í starfsemi helstu bankastofnana landsmanna á undanförnum árum.

Almenningur horfir mjög til efnis þessarar skýrslu og ekki síst til starfa sérstaks saksóknara á komandi vikum og hvaða áhrif skýrslan muni hafa á störf hans. Almenningur hefur orðið vitni að æ meiri útflutningi á eignum og tekjum og nú síðast lögheimilum ýmissa þátttakenda í hinu svokallaða bankahruni. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hvaða áhrif þessir gjörningar sem um hefur verið rætt í fjölmiðlum og víðar muni hafa á rannsókn sérstaks saksóknara á málum sem tengjast bankahruninu, meintum sakamálum. Mun flutningur á lögheimilum til Evrópu hafa þar einhver áhrif og kunna að vera breytileg áhrif milli landa, svo sem eins og Bretlands og annarra landa? Mun sérstakur saksóknari þurfa á auknu umboði að halda og fleiri tólum til að takast á við þessi verkefni í ljósi þess efnis sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og mun klárlega hafa áhrif á störf hans?