138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Eins og öllum er augljóst er erfitt að tjá sig um skýrslu sem menn eru ekki búnir að lesa nema e.t.v. að litlu leyti. Það eru fjölmörg atriði í henni sem ég hef áhuga á að taka upp í þingsal og í framtíðinni við bæði ráðherra og aðra þingmenn. Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar setjist niður og reyni að ákveða einhverja dagskrá á næstu vikum þannig að maður gæti þá tekið frá t.d. einn dag í viku þar sem ekki yrði gert annað en að ræða frekar það sem kemur fram í þessari skýrslu. Það eru fjölmörg atriði sem þarf að taka á mjög bráðlega. Svo eru einnig í henni fjölmörg atriði sem eru fóður fyrir framtíðina og sem þarf að ræða síðar meir. Mér finnst brýnt að meiri tími sé gefinn í þessa umræðu og velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé ekki sama sinnis.