138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðu hans. Mér fannst mjög áhugavert það sem hann sagði í andsvari sínu við hv. þm. Pétri Blöndal varðandi mikilvægi þess að breyta umræðuhefðinni innan Alþingis. Þetta er ein af meginniðurstöðunum hjá siðfræðinefndinni, að umræðustíllinn hafi kannski minnt meira á morfískeppni eða einhvers konar kappræður en málefnalegar umræður um mikilvæg málefni. Ég vil biðja þingmanninn um að útskýra aðeins betur hver munurinn er á því hvernig nefndastarf gengur fyrir sig innan Norðurlandaráðsins á miðað við hvernig það fer fram hér. Ég hefði auk þess líka mikinn áhuga á að heyra frá þingmanninum hvernig hann sér fyrir sér að við getum styrkt þetta stjórnvald sem hann talar um, fjölmiðlana. Ég sit í menntamálanefnd og við erum einmitt núna með nýja heildarlöggjöf um fjölmiðla til umfjöllunar. Ég verð að viðurkenna að ég á dálítið bágt með að sjá nákvæmlega hvar það er sem við styrkjum fjölmiðlana. Við virðumst vera að leggja ýmsar nýjar kvaðir á fjölmiðla, auknar kvaðir varðandi það að skila inn alls konar upplýsingum til nýrrar stofnunar sem á að heita Fjölmiðlastofa, en ég sé ekki beinlínis styrkingu gagnvart fjölmiðlamarkaði.

Það er að vísu ætlunin samkvæmt frumvarpinu frá hæstv. menntamálaráðherra að skipa nefnd sem yrði þá skipuð fulltrúum allra þingflokka. Sú nefnd hefði þurft að velta fyrir sér samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði. En enn á ný, hvar sér þingmaðurinn fyrir sér að við getum í raun og veru styrkt fjölmiðla sem eiga að mínu viti mjög bágt í dag?