138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:30]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal andsvarið. Það er rétt að ég hef tekið eftir frumvarpi hans um gagnsæ hlutafélög og ég hef náttúrlega velt þessu fyrir mér, kannski ekki nægilega vel. En með hvaða hætti er hægt að koma í veg fyrir svona krosseignatengsl fyrirtækja inn í framtíðina? Það er t.d. hægt með því einfaldlega að banna fyrirtækjum að eiga í öðrum fyrirtækjum. Fyrirtæki sem slík eru fyrirbæri sem eru ekki með sjálfstæða hugsun og geta ekki átt neitt. Þeir einu sem geta átt eitthvað eru eigendur fyrirtækjanna og það er afskaplega einkennilegt fyrirkomulag að eitthvert huglægt fyrirbæri sem heitir fyrirtæki skuli geta átt í öðru fyrirtæki eða jafnvel tugum eða hundruðum annarra fyrirtækja. Það mætti koma því þannig fyrir að ef stjórnendur og þá eigendur einhvers fyrirtækis hefðu áhuga á að kaupa hlut í eða jafnvel annað fyrirtæki að það yrði þá gert í nafni þeirra einstaklinga en ekki í nafni einhverrar kennitölu á einhverju fyrirtæki. Gagnsæja hlutafélagafyrirbærið hans Péturs Blöndals fer langt í þessa átt.

Sama á við um lífeyrissjóðina, það verður að koma skýrt fram hver fjárfestingarstefna lífeyrissjóða er og hversu vel er farið eftir henni. Ef lögboðin skylduaðild er að lífeyrissjóðum verður almenningur að fá svigrúm til að fá upplýsingar um þá sjóði og fá svigrúm til að færa sig á milli sjóða ef menn eru ekki ánægðir með sjóðina. Það er bara algjörlega sjálfsagt mál ef verið er að taka peninga af fólki með lögum að það fái einhverju um það ráðið hvert þeir fara.