138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það mun taka nokkurn tíma að lesa, skilja og læra af þeirri samfélagslýsingu sem birtist í rannsóknarskýrslunni sem við fengum í hendur á mánudaginn og ætla ég eins og aðrir þingmenn hér á undan að ljúka lofsorði á það mikla verk. En það verður að vera markmiðið að læra af skýrslunni og varast vítin sem hún sýnir okkur. Það verður erfiðara að sýna af sér andvaraleysi á Íslandi hér eftir en áður var. Fólk leitar skýringa og sökudólga. Það er vissulega nauðsynlegt að draga menn til ábyrgðar. Sakamenn eiga að sæta refsingu fyrir refsivert athæfi og það virðist nóg af slíkri hegðun í því þjóðfélagi sem við bjuggum í.

En það þarf einnig að leita skýringa því að þær hljóta að vera birtingarmynd þess sem við þurfum að forðast í framtíðinni. Hvers vegna gátu menn valsað um fjármálastofnanir og stolið þeim innan frá, eins og sagt hefur verið? Svarið við því er einfalt: Vegna þess að höfuðpaurarnir áttu bankana. Rótina má sem sagt rekja til einkavæðingarinnar eða öllu heldur einkavinavæðingarinnar. Það má sannarlega taka undir það með fyrrverandi viðskipta- og bankamálaráðherra sem hún sagði í viðtali fyrr í vikunni að seljendurnir, við, íslenska ríkið, vorum óheppin með kaupendur.

Einkavæðing bankanna er ekki gagnrýnisverð út af fyrir sig. Sumir stjórnmálaflokkar eru eindregnari í skoðun sinni á yfirburðum einkarekstrar en aðrir en spurningin er ekki um það í þessu dæmi, spurningin er um aðferðina. Aðferðin sem notuð var við einkavæðingu bankanna hér á landi verður ekki rekin til neinnar stjórnmálaskoðunar eða stjórnmálastefnu. Einkavæðingu bankanna hér á landi verður fyrst og fremst lýst með orðinu „spilling“ og það má bæta við „valdhroki“.

Sumir vilja halda því fram að þegar komið hefur verið á viðskiptafrelsi og bankafrelsi, eins og komið var á hér á landi, sé ábyrgðin á því að vel og rétt sé staðið að hlutum fyrst og fremst í höndum þeirra sem eiga fyrirtækin, bankanna, vegna þess að frelsinu fylgi ábyrgð. Þetta er þó einungis hálf sagan. Þeir sem veita frelsið bera einnig ábyrgð. Stjórnmálamenn veittu bönkunum frelsið og þeir bera ábyrgð gagnvart þeim sem þeir starfa fyrir, þeir bera ábyrgð gagnvart kjósendum, gagnvart fólkinu í landinu. Og það eru ekki bara einhverjir sérstakir kjósendur, ekki bara bankamenn, iðnaðarmenn, kennarar eða útgerðarmenn heldur allir kjósendur í landinu.

Þegar stjórnmálamennirnir höfðu látið bankana af hendi bar þeim skylda til að búa til þannig umhverfi að ekki væri hægt að ræna þeim innan frá eins og gert var. Stjórnvöld brugðust skyldu sinni í þeim efnum. Það má kannski orða þetta þannig að bankamennirnir hafi eyðilagt bankana og þannig leitt yfir þjóðina efnahagshamfarir en það voru stjórnvöld, stjórnmálamenn, sem leyfðu þeim það og það voru stjórnmálamennirnir sem höfðu ekki kjark og þor til að koma í veg fyrir að hrunadansinn yrði svo trylltur sem raun bar vitni hvort heldur það var árið 2006, 2007 eða síðla vetrar og á útmánuðum árið 2008. Þetta verðum við að horfast í augu við hvort heldur okkur líkar betur eða verr.

Í fyrsta hefti samfélagslýsingarinnar er yfirlit um hagstjórn í góðærinu. Það er eins og svo margt annað í þessu riti skelfileg lesning. Fjármálastjórnin var í molum og peningamálastjórnin var í molum. Það er ekki til neins að karpa um hvort og hverjir hafi verið á móti einstökum aðgerðum, staðreyndin er að efnahagsstjórn í landinu var engin. Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á því.

Fram kemur í samfélagslýsingunni að strax árið 2006 hefði þurft að grípa í taumana og stöðva stækkun bankanna. Það var ekki gert. Það afsakar þó ekki að ekkert róttækt var aðhafst til að koma í veg fyrir fullkomna katastrófu fyrr en seint í september 2008 þegar róttækar aðgerðir hófust með yfirtöku Glitnis, aðgerðir sem eins og kunnugt var mistókust. Þeir sem voru í fararbroddi við stjórn landsins á þeim tíma geta þó ekki skýlt sér á bak við að þeir hafi ekki vitað hvert stefndi. Aftur má nota orðið „skelfilegt“.

Nú, um lýsingar í rannsóknarskýrslunni á fundum æðstu manna stjórnkerfisins frá því í febrúar 2008. Þar var fundað dag eftir dag en enginn þorði að taka ákvörðun og allir virðast hafa vonað að einhver annar gerði eitthvað. Í hagfræðinni lærði ég að það að gera ekki neitt getur verið afdrifaríkasta ákvörðunin. Það sannaðist í þessum efnum.

Þegar komið var fram í apríl 2008 var íslenskum yfirvöldum boðin aðstoð við að koma okkur upp á eitthvert sker. Þeirri aðstoð var einfaldlega hafnað. Skelfilegt er líka að lesa í frásögnum erlendra manna af fundunum með Íslendingum allt fram á síðasta dag að okkar fólk hafi verið illa undirbúið og ekki virst átta sig á stöðunni. Vissulega erum við fámenn þjóð og eigum ekki á að skipa mörgum sérfræðingum en það afsakar ekki að vinna ekki heimavinnuna, undirbúa sig ekki undir fundi. Hér var sem sagt allt vaðandi í subbi og slóðaskap ef talað er tæpitungulaust. Þetta er hluti fortíðarinnar, þetta er hluti af því sem við verðum að lifa með það sem eftir er og við þurfum að læra af því.

Framtíðin er það sem skiptir máli. Við þurfum að veita hvert öðru aðhald. Við megum ekki láta það gerast aftur að þeir sem fara fyrir þjóðinni telji sig hafna yfir lög, reglur, venjur og góða siði. Hvort heldur litið er til þess sem kannski má líta á sem upphafið, einkavæðingar bankanna, eða endalokanna, falls bankanna, töldu ráðamenn sig ekki þurfa að fara eftir þeim reglum sem gilda í stjórnskipuninni í þjóðfélaginu. Fólk taldi sjálft sig skipta meira máli en verkefnin sem því var falið að leysa. Tveir karlar töldu sig þess umkomna að selja vinum sínum bankana og í lokin töldu forustumenn ríkisstjórnarinnar sig ekki þurfa að fara eftir lögboðinni verkaskiptingu innan ríkisstjórnarinnar. Í stjórnkerfinu voru engar reglur virtar, ef þær voru þá til. Ráðherrar og embættismenn virðast hafa ákveðið hver upp á sitt eindæmi hvað væri best að gera og hvað ekki, hvenær og klukkan hvað. Valdamenn tóku sjálfa sig fram yfir embætti sín og stjórnmálamenn tóku hagsmuni flokka sinna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar.

Mikil ábyrgð hvílir nú á okkur Íslendingum að byggja upp þjóðfélag á þeim rústum sem við stöndum á. Það á ekki einungis við um stjórnmálamenn, sem vissulega hafa þó sóst eftir því að vera í broddi fylkingar um áhrif í þjóðfélaginu, ábyrgðin hvílir á þeim sem reka fyrirtækin, kenna börnunum, stjórna verkalýðsfélögum og félögum atvinnurekenda, ábyrgðin hvílir á kjósandanum í kjörklefanum.

Nýja þjóðfélagið verður ekki reist á einni viku, einum mánuði eða einu ári. Það er löng leið fram undan. Fyrstu skrefin hafa verið stigin í sumum efnum. Frumvarp um stjórnlagaþing, sem ætlað er að semja nýja stjórnarskrá, er langt komið í umræðu í allsherjarnefnd Alþingis. Frumvarp um persónukjör sem mundi auka vald kjósenda og minnka völd flokkanna er styttra komið. Því þarf að ýta áfram. Frumvarp um frekari aðskilnað löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins var lagt fram í lok mars. Þessum frumvörpum þurfum við hér í þinginu að koma áfram.

Í Stjórnarráðinu er unnið að ýmsum málum sem bæta eiga starfshætti í stjórnsýslunni og sérstakri nefnd hefur verið falið að skoða samfélagslýsinguna með það í huga hvað betur megi fara og ekki hefur verið hafist handa við. Hitt er þó aðalatriðið að hér verði hugarfarsbreyting. Hennar sér þegar stað í þjóðfélaginu, finnst mér vera, en hún þarf að ná inn í raðir okkar stjórnmálamannanna. Við þurfum að vera klár á því að við erum ekki hér okkar vegna heldur í vinnu fyrir fólkið í landinu. Við berum ábyrgð á því að öll getum við varðveitt frelsið sem okkur er öllum svo mikils virði en það verður ekki gert nema setja því skorður, það er okkar verkefni. Það er löng ferð sem við leggjum upp í en hvert lítið skref er í rétta átt og verður mikils virði.