138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að ég þarf fleiri atrennur til að reyna að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni. (HöskÞ: Ég skil þetta mætavel.) Það er nefnilega þannig að eigið fé bankanna var ekki reitt fram. Þeir voru ekki fjármagnaðir fyrr en á grundvelli samninganna. Þá þegar lá fyrir að kröfuhafarnir stefndu að því að reiða fram féð og mynda eigið fé bankanna. Eign ríkisins var aldrei nema þetta litla sem ríkið lagði inn í raun og veru. Það var að vísu tímabundið ástand sem stóð í stuttan tíma þar sem það var valkvætt fyrir kröfuhafana hvort ríkið mundi eiga þá eða þeir. Þeir völdu að eiga þá í tveimur tilvikum eins og kunnugt er, Arion banka og Íslandsbanka. Þess vegna er það þannig að bæði bókhaldslega og efnislega og miðað við eðli máls átti ríkið í raun og veru aldrei bankana. Menn verða að hafa í huga (Gripið fram í: … Landsbankann.) að það sem gerist er að þegar neyðarlögin eru sett og innlendu umsvifin í bankakerfinu eru flutt yfir í nýja banka eru fluttar ríflegar eignir á móti. Til að ekki væri verið að brjóta lög og hafa fé af kröfuhöfum varð að jafna þá reikninga þannig að það stæðust á eignir og skuldir. Um það snerust hinar flóknu samningaviðræður um bankana.

Síðan hitt að það varð að leggja bönkunum til nýtt eigið fé því ekki var hægt að mynda það með mismun á eignum og skuldum sem fluttar voru yfir, þá hefði verið haft rangt við. Þetta eigið fé kemur nú frá kröfuhöfunum. Þeir fjármagna því bankana frá byrjun. Bókhaldslega er þetta þannig að það er frá fyrsta degi, þegar þeir urðu til eftir setningu neyðarlaganna í október, sem þeir eru þá í uppgjörinu í eigu hinna innlendu og erlendu eigenda á bak við skilanefndir bankanna.

Já, eignarhald á bönkum skiptir miklu máli. Ég geri ekki lítið úr því. Þar er ég sammála hv. þingmanni að við þurfum að fara vandlega yfir það hvaða regluverk við setjum í þeim efnum. Ég væri tilbúinn til að ganga eins langt og nokkur kostur er miðað við evrópsk lög og reglur að aðskilja eignarhald fjárfestingarbanka og viðskiptabankastarfsemi. Ég barðist fyrir því hér á þingi í mörg ár og að setja reglur um dreift eignarhald. Það mundi ekki (Forseti hringir.) standa á mér að þróa löggjöfina í þá átt.