138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í framhaldi af orðum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um þá umræðu sem hefur skapast um tengsl viðskiptavelda í landinu og þá sérstaklega Baugs við stjórnmálaflokkana. Ég tek undir það að sú umræða sem var í þinginu í fyrradag vakti athygli mína og þau orð sem þar féllu um tengsl Baugs við minn flokk, Samfylkinguna. Þar var ýmislegt sem kom mér í opna skjöldu og ég tel að þessi ummæli gefi fullt tilefni til að fara mjög vandlega ofan í hver voru raunverulega tengsl viðskiptaveldanna í landinu við stjórnmálaflokkana í landinu, Samfylkinguna og alla hina flokkana, því að hvorki þingheimi né stjórnmálaflokkunum í landinu er bjóðandi upp á það að hér sé talað í einhverjum hálfkveðnum vísum og vangaveltum sem eru meira og minna órökstuddar. Auðvitað hef ég eins og aðrir tekið eftir því að úr þessum ranni, t.d. úr þeim fyrirtækjum sem tengdust Baugi, komu risastyrkir upp á allt að 30 millj. kr. til tiltekinna stjórnmálaflokka og vakti það mikið uppnám á sínum tíma.

Varðandi síðan það sem tengist styrkjum frá bönkunum til Samfylkingarinnar þá hefur það líka vakið athygli mína að ekki er samræmi í þeim tölum sem koma fram í rannsóknarskýrslunni annars vegar og hins vegar í þeim gögnum sem Samfylkingin sjálf skilaði inn til Ríkisendurskoðunar. Í þeim tölum sem eru sendar inn á árinu 2009 til Ríkisendurskoðunar kemur fram að Samfylkingin fékk styrki upp á 28,6 millj. en sú tala sem kemur fram samanlögð í skýrslunni er einungis upp á 26 millj. Þarna er misræmi upp á 2,6 millj. sem ég hef ekki fengið neinar viðhlítandi skýringar á af hverju rannsóknarnefndin hefur ekki upplýsingar um en það er eitt af því sem þarf að fara vel yfir í framhaldinu því að gagnsæi er krafa þjóðarinnar og okkar allra á þessum tíma. Við eigum að hafa alla þessa hluti uppi á borðinu og allt misræmi kallar á frekari (Forseti hringir.) rannsóknir og ítarlegri svör.