138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki frekar í þessari umræðu en öðrum skal ég villa á mér heimildir. Ég hef ekki verið mikill áhugamaður um sameiningu ríkisstofnana, alveg sérstaklega ekki á landsbyggðinni, og þess vegna kemur kannski engum á óvart að ég hafi ýmislegt við það að athuga sem í þessu frumvarpi segir. Til að slá aðeins jákvæðari strengi vil ég samt sem áður segja að ég ætla ekki fyrir fram að útiloka að það kunni að vera skynsamlegt að slá saman lögregluumdæmum með einhverjum hætti. Fyrir því kunna að vera fagleg rök eins og hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra rakti í ræðu sinni áðan. Það kunna líka að vera fyrir því fjárhagsleg rök. Þó að ég sé fyrir fram afar gagnrýninn á allar hugmyndir um sameiningu ríkisstofnana á landsbyggðinni ætla ég ekki að berja svo hausnum við steininn að ég sjái mér ekki fært að horfa a.m.k. sæmilega opnum huga á hugmyndir af þessu taginu, sérstaklega við þær aðstæður sem við búum við núna.

Eins og hæstv. ráðherra rakti standa auðvitað spjótin á stofnununum og við þurfum að horfa til þess hvert hlutverk þeirra á að vera, hvernig við getum best ræktað það og hvernig við getum notað fjármunina sem núna eru takmarkaðri en áður til að fá sem mest út úr þeim verkefnum sem við ætlum þessum stofnunum að sinna.

Þetta verður kannski allt sem ég mun segja jákvætt um málið en er þó dálítil byrjun og sýnir að ég er a.m.k. tilbúinn til að skoða þessi mál. Auðvitað vigta hvoru tveggja rökin þungt, þ.e. hin faglegu og síðan hin fjárhagslegu. Ég ætla í upphafi að fara yfir það sem mér finnst snúa að faglegu rökunum.

Hugsunin er einfaldlega sú að segja að lítil embætti séu faglega verr í stakk búin en hin stóru til að takast á við þessi erfiðu mál, alvarlega glæpi, glæpi sem teygja sig um allt landið og kannski allan heiminn, og það eru dálítil rök í því. Það verða líka að vera fagleg rök sem lúta að því að menn horfi á þessa hluti í eðlilegu landfræðilegu samhengi. Að mínu mati er ekki nægjanlegt að horfa á þetta eingöngu út frá íbúafjölda, enda sjáum við að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því, ef við skoðum þetta þannig, að hin landfræðilega samsetning er með þeim hætti að íbúafjöldinn í lögreglustjóraembættinu, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, er allur annar en verður jafnvel í þessum sameinuðu embættum úti á landi. Það endurspeglar út af fyrir sig þann veruleika. Hinn landfræðilegi veruleiki er líka sá sem kemur hér fram að gert er ráð fyrir því að setja saman í eitt embætti lögregluumdæmi sem spanna stóran hluta landsins. Það er að mínu mati einfaldlega of í lagt, það er of hratt farið, of stórt skref stigið.

Mjög vinsæll frasi þegar fjallað er um þessi mál með hliðsjón af landsbyggðinni er: Ja, nú er búið að laga svo mikið vegina. Það er ekki bara að þeir séu heflaðir betur, heldur er komið bundið slitlag, það er búið að ryðja burtu hindrunum og við erum með svo fín fjarskipti o.s.frv. Fjarskiptin eru reyndar svona og svona eins og við vitum sem ökum þjóðvegina, ég tala nú ekki um ef við förum út fyrir þjóðvegina. Það er líka orðum aukið að hinar miklu umbætur í samgöngumálum hafi leyst allan vanda. Það er stundum torleiði á milli höfuðborgarsvæðisins og Vestfjarða. Það er stundum erfitt að ferðast um svæði á Austfjörðum eða Norðurlandi svo dæmi séu tekin. Þess vegna verða menn að horfa á þetta svona og ekki líta fram hjá því að þessir erfiðleikar eru þrátt fyrir allt enn þá til staðar.

Með öðrum orðum tel ég að í a.m.k. þeim tveimur umdæmum sem hér er verið að leggja til sé skrefið stigið of langt. Í fyrsta lagi tel ég algjörlega óraunhæft að hafa einn lögreglustjóra fyrir Vesturland og Vestfirði og í annan stað tel ég líka óraunhæft að hafa lögreglustjóra fyrir allt Norðurland. Fyrir því eru þau rök í fyrsta lagi að við erum hér að tala um landfræðilega of stór embætti. Embætti sem nær frá Bolungarvík í Hvalfjarðarbotn, til og með Snæfellsnesi, embætti sem nær úr Hrútafjarðarbotni austur og norður um að Langanesi er landfræðilega of stórt. Það gengur ekki.

Ríkisstjórnin hefur lagt gríðarlega áherslu á sóknaráætlun 20/20 sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni áðan. Til að árétta þetta fóru í vetur fram svokallaðir þjóðfundir, fundir þar sem reynt var að leggja á ráðin um sóknarfæri og sérstöðu í þessum landshluta. Það er engin tilviljun að ríkisstjórnin ákvað að skipta landinu upp þar með tilteknum hætti. Mér er ekki kunnugt um að það sé ýkja mikill ágreiningur um þá skiptingu. Sá ágreiningur var til staðar í upphafi. Ríkisstjórnin brást við því með því að hverfa frá þeirri skiptingu sem þá var lagt upp með og taka upp aðra. Það er í grófum dráttum sú skipting sem ríkti í gömlu kjördæmunum áður en þau voru sameinuð.

Það vekur athygli mína að að öðru leyti eru hér lögð til lögregluumdæmi á Austfjörðum og Suðurlandi, í grófum dráttum, ekki algjörlega, eftir gömlu kjördæmamörkunum sem þá giltu. Ég tek fram að það er í grófum dráttum, ég sé að skiptingin er t.d. öðruvísi á milli Austfjarða eða Austurlands og Suðurlands en var í gömlu kjördæmaskipuninni ef ég les rétt út úr þessu korti. Aðalatriðið er þó að það er verið að víkja frá þeirri hugsun sem var, og er í sóknaráætlun 20/20, sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem var síðan kynnt með miklum bravör, lúðrablæstri og fundum úti um allt land til að leggja áherslu á að ríkisstjórnin hugsaði sér sóknarfærin eftir þessari skiptingu.

Ég tel engin rök fyrir því að haga lögregluumdæmaskiptingunni í landinu með öðrum hætti en þarna var lagt upp með. Það er ekki nokkur vandi að sýna fram á að hin faglegu rök geta allt eins átt við um svæðin sem skipt yrði niður þannig að Norðurlandi væri skipt í tvennt og Vesturland og Vestfirðir væru hvort sitt umdæmið.

Sömuleiðis er augljóst mál að fjárhagsleg áhrif af þessu yrðu lítil sem engin. Með öðrum orðum yrði ekki umtalsverður kostnaðarauki af því að í stað þessara tveggja umdæma, Norðurlands annars vegar, Vesturlands og Vestfjarða hins vegar, værum við með fjögur umdæmi. Ég er sannfærður um að um það mál yrði miklu frekar sátt en að stíga þetta stóra skref.

Ég sat með hæstv. ráðherra á ágætum fundi fyrr á þessu ári, hygg ég að hafi verið frekar en fyrir áramótin, á Ísafirði sem boðað var til af hálfu Lögreglumannafélags Vestfjarða. Þá kom mjög skýrt fram að vilji heimamanna þar var að ganga til samstarfs um það verkefni að sameina lögregluumdæmin, m.a. til að ná fram fjárhagslegum sparnaði, en menn vildu ekki ganga eins langt og þessi tillaga felur í sér.

Ég skora þess vegna á hæstv. ráðherra að taka tillit til þessara sjónarmiða þótt ekki væri nema af þeim ástæðum að reyna að skapa um þessi mál meiri sátt og betra samkomulag. Ég skora sömuleiðis á allsherjarnefnd sem fær þetta mál til meðhöndlunar að taka tillit til sjónarmiða heimamanna í þessum efnum. Þau hljóta að vega eitthvað, sérstaklega í ljósi þess að heimamenn taka í sjálfu sér undir það að þeir eru tilbúnir til að skoða breytingar á þessu fyrirkomulagi. Það er heilmikið skref sem verið er að stíga í þessum efnum og það er ekki að ástæðulausu sem menn hafa áhyggjur þegar kemur að því að sameina embætti úti á landsbyggðinni. Það er ekki eins og menn hafi ekki staðið frammi fyrir svona hlutum áður. Það er ekki eins og menn hafi ekki áður heyrt að þetta muni ekki hafa neina röskun í för með sér. Reynslan sem því miður er yfirleitt ólygnust segir okkur að þetta gangi allt ágætlega fyrst, en einhvern veginn toga hinir miðlægu kraftar fólkið og fjármagnið til sín. Þess vegna eru menn á landsbyggðinni logandi hræddir við að missa frá sér störf, áhrif og þjónustu. Það er það sem þetta snýst um.

Ég las í gegnum álit fjármálaráðuneytisins og þar er reynt að meta sparnaðinn af þessu. Hann er sannarlega áætlaður allmikill. Það kemur að vísu ekki fram á hve löngum tíma menn hyggjast ná þeim mikla sparnaði sem þarna getur orðið, 330 millj. kr. á ári, 4,5% af veltu starfseminnar. Það er sannarlega mikill sparnaður. Það vekur athygli mína að u.þ.b. helmingurinn af þessum sparnaði á að nást í sparnaði á bakvöktum lögreglumanna. Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að menn viti hvað hér er um að ræða. Er þetta raunhæft? Er til dæmis raunhæft að lögreglumaðurinn á Ísafirði eða úti í Bolungarvík gegni bakvaktahlutverki á fjarlægum slóðum?

Þannig hafa menn reynt að gera þetta upp á síðkastið. Ég hitti í fyrrasumar norður í Árneshreppi kunningja minn úr lögreglunni á Ísafirði. Hann var sendur þangað til að vera um nokkurra daga skeið til að gæta laga og réttar norður þar — þar sem menn eru almennt löghlýðnir með afbrigðum eins og allir vita. Ég á von á því að þetta verði erfiðara. Þess vegna óttast ég að þarna sé kannski verið að ofmeta sparnaðarmöguleika. Hins vegar væri fróðlegt að heyra hvað þarna liggur að baki, hvað menn geta ímyndað sér að hægt sé að ná fram í sparnaði í þessum efnum og með hvaða hætti sé hægt að ná sparnaðinum fram. Auðvitað munu menn horfa á þetta. Lögreglumenn hljóta að horfa á þetta. Hvað er verið að tala hér um? 140 millj. kr., helmingurinn af sparnaðinum sem kæmi í gegnum breytt bakvaktafyrirkomulag sem væntanlega hefði annaðhvort áhrif á fjölda lögreglumanna eða greiðslu til þeirra með einhverjum öðrum hætti.

Sömuleiðis rek ég augun í að gert er ráð fyrir að hægt sé að ná fram 80 millj. kr. sparnaði með meiri miðstýringu á innkaupum. Það held ég að geti varla verið háð því að sameina þessi embætti. Það getur ekki annað verið en að við getum náð sambærilegum sparnaði með því að samkeyra innkaup núverandi stofnana þess vegna, eða fleiri stofnana. Ríkisvaldið hefur gríðarlega möguleika í þessu. Við erum með sérstakar stofnanir sem eiga að standa fyrir útboðum á innkaupum vöru og þjónustu. Ég get ekki séð að út af fyrir sig hangi þessi 80 millj. kr. sparnaður á hugmyndunum um að búa til sex lögregluumdæmi í landinu. Það er bara sjálfsagt verkefni í sjálfu sér að standa að innkaupum með þeim hætti, hvort sem það er á grundvelli núverandi lögregluumdæma eða einhverra fleiri lögregluumdæma.

Það er alveg rétt sem kemur fram í þessu frumvarpi, athugasemdum við það og greinargerð að ýmislegt hefur verið gert til að færa verkefni út til sýslumannsembættanna og eftir atvikum lögregluembættanna. Sektarinnheimturnar bæði í Bolungarvík og Blönduósi eru mjög gott dæmi um það og þar hefur þetta virkað vel. Ég tel að þar séu gríðarlegir möguleikar sem við eigum að nýta okkur áfram.

Það er alveg rétt sem bent hefur verið á, að menn þurfa að fara að vinna þetta yfir ráðuneytamörk. Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og í menntamálaráðuneytinu, svo dæmi séu tekin, fer fram alls konar innheimta sem vel mætti hugsa sér að færi fram á þessum stöðum. Ég tek eftir því að sérstök verkefnastjórn á að annast þessar breytingar, halda utan um þær og m.a. móta verklagið við þetta, þar á meðal að skoða svona leiðir og hugmyndir. Ég leyfi mér að skora á þá sem munu hafa það verk með höndum, að því gefnu að þetta frumvarp verði að lögum, að samhliða verði skoðaðir slíkir möguleikar því að það er einfaldlega ekkert fast í hendi fyrr en það er fast í hendi. Menn lifa ekki endalaust á góðum loforðum og velviljuðum huga. Reynslan sýnir okkur það, því miður. Fjandinn lætur ekki laust það sem hann hefur í hendi sér, eins og við vitum, og við þurfum þess vegna yfirleitt að toga öll þessi verkefni út á land með töngum.

Þess vegna hvet ég til þess að samhliða því að þessi verkefnastjórn vinnur verkefni sitt móti hún einhverjar hugmyndir um með hvaða hætti hægt verði að toga þessi verkefni út í þessi umdæmi, til að styrkja grundvöll þeirra.

Hæstv. ráðherra sagði að það biði betri tíma að ákveða hvar höfuðstöðvarnar yrðu í þessum nýju sameinuðu lögregluumdæmum. Eigum við ekki bara að tala hreinskilnislega um þessa hluti? Höfuðstöðvarnar verða auðvitað á stóru stöðunum. Höfuðstöðvarnar á Norðurlandi, ef þetta verður að veruleika, verða á Akureyri, þær verða ekki á Blönduósi, ekki á Sauðárkróki, ekki á Húsavík, þær verða á Akureyri. Sama yrði auðvitað með sýslumannsembættin. Þangað toga einfaldlega kraftarnir. Maður verður var við það að í stærri lögregluumdæmunum og sýslumannsembættunum er meiri áhugi á sameiningu en menn gjalda frekar varhuga við þessu í þeim minni. Þetta er bara veruleikinn. Þetta er vegna þess að menn óttast að völdin, áhrifin, þjónustan, störfin og fjármunirnir togist burtu úr þessum litlu byggðarlögum. Það eru lögmætar áhyggjur. Það eru áhyggjur sem menn eiga alveg að taka tillit til. Það er ekkert ljótt við það að hafa áhyggjur af því að byggðin manns láti undan síga.

Virðulegi forseti. Þetta voru hugleiðingar mínar í þessum efnum. Fyrst og fremst vil ég skoða það með alveg opnum huga að það sé athugað með einhverjar sameiningar á þessum lögregluumdæmum. Ég tel bæði óraunhæft og óskynsamlegt að stíga svo stór skref eins og þarna eru stigin, sérstaklega rek ég hornin í hugmyndirnar um sameininguna á Norðurlandi og Vesturlandi og Vestfjörðum og tel að a.m.k. þar ættu að vera fjögur lögregluumdæmi en ekki tvö.