138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

varamenn taka þingsæti.

[13:32]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Eins og þegar hefur verið tilkynnt á vef þingsins tók Auður Lilja Erlingsdóttir sæti á Alþingi í gær í stað Árna Þórs Sigurðssonar, 5. þm. Reykv. n., sem verður fjarverandi sökum veikinda næstu þrjár vikurnar. Kjörbréf Auðar Lilju Erlingsdóttur hefur verið rannsakað og samþykkt. Hún hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðin velkomin til starfa á ný.

Forseta hefur borist svohljóðandi bréf:

„Þar sem ég get af persónulegum ástæðum ekki sótt þingfundi á næstunni óska ég eftir því, með vísun til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 1. varamaður flokksins í kjördæminu, Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.

Virðingarfyllst,

Ögmundur Jónasson,

10. þingmaður Suðvesturkjördæmis.“

Ólafur Þór Gunnarsson hefur áður tekið sæti á þingi á þessu kjörtímabili og er boðinn velkominn til starfa á ný.

Forseta hefur borist svohljóðandi bréf frá Illuga Gunnarssyni:

„Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ákveðið að vísa málum er tengjast rekstri peningamarkaðssjóða til áframhaldandi rannsóknar, en undirritaður átti sæti í stjórn slíks sjóðs. Óvíst er hvert framhald þeirra mála verður. Mat mitt er að óvissan sem myndast hefur vegna þessa sé til þess fallin að draga úr trúverðugleika á störfum mínum á Alþingi. Meðan svo er tel ég nauðsynlegt að taka mér leyfi frá þingstörfum þar til niðurstaða hefur verið fengin um framgang þessara mála. Ég óska þess vegna eftir því að 1. varamaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, Sigurður Kári Kristjánsson, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.

Virðingarfyllst,

Illugi Gunnarsson,

3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður.“

Forseta hefur einnig borist bréf frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur:

„Alþingi hefur til umfjöllunar skýrslu rannsóknarnefndar þingsins um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Nafn mitt og fjölskyldu minnar kemur þar við sögu. Af þeim sökum hef ég ákveðið, bæði með hliðsjón af umfjöllun Alþingis um skýrsluna og í þágu fjölskyldu minnar, að taka mér leyfi frá þingstörfum á meðan þeir þættir eru til umfjöllunar á yfirstandandi þingi sem að mér snúa.

Ég óska þess vegna eftir því, með vísun til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að varamaður minn af lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu taki sæti mitt á Alþingi á meðan.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,

5. þingmaður Suðvesturkjördæmis.“

Kjörbréf þeirra Sigurðar Kára Kristjánssonar og Óla Björns Kárasonar hafa þegar verið rannsökuð og samþykkt. Sigurður Kári Kristjánsson hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðinn velkominn til starfa á ný. Óli Björn Kárason hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi og ber því að undirskrifa drengskaparheit að stjórnarskránni skv. 2. mgr. þingskapa.

 

[Óli Björn Kárason, 5. þm. Suðvest., undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni.]