138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[13:49]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki seinna vænna að hæstv. ríkisstjórn léti frá sér heyra um eldgosið í Eyjafjallajökli. Allt sem kom fram hjá hæstv. ráðherrum er af hinu góða en hins vegar er alveg ljóst að það þarf að bregðast við á markvissari hátt. Mig langar til að reifa það stuttlega.

Það sem var mikilvægast í yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra var að hann staðfesti að ríkisstjórnin muni tryggja fjármagn til Bjargráðasjóðs til að greiða bætur fyrir tún og girðingar. Þetta er mikil hvatning fyrir bændur á svæðinu og sveitarfélagið allt þar sem vandinn er og skiptir mjög miklu máli. Það er ljóst að Viðlagatrygging sér um húsakost og slíkt og þar er til nóg af peningum. Hjá Bjargráðasjóði er lítið af peningum en nú var mikilvægt að heyra þessa yfirlýsingu frá ríkisstjórninni þannig að það á að vera á hreinu.

Það skiptir auðvitað mjög miklu máli eins og kom fram hér að koma upplýsingum skipulega til fólks, til íbúanna, en það má keyra betur. Ég tel að það verði að grípa til þess strax að skipa ákveðna mannvirkjanefnd. Almannavarnir og ríkislögreglustjóri sjá um ákveðna hluti sem ríkisstjórnin fól þeim en þeir eru ekki með þá verkþekkingu og kunnáttu sem þarf til að meta varnargarða, skemmdir á túnum, skemmdir á mannvirkjum og slíkri aðstöðu. Þar væri æskilegast að þriggja manna nefnd stýrði því, nefnd sem væri til að mynda skipuð sveitarstjóranum á Hvolsvelli, í Rangárþingi eystra, landgræðslustjóra og vegamálastjóra. Þeir hafa allir þá tengingu sem þarf til þess að bregðast skjótt við.

Í öðru lagi held ég að það sé mjög mikilvægt að ráða nú þegar a.m.k. 100 björgunarsveitarmenn sem mundu sinna því verkefni sem þarf að gera. Þá yrði það miklu markvissara en gert er þó að margt hafi verið vel gert hingað til. Einnig held ég að það sé mikil ástæða til að virkja sjálfboðaliða sem hafa margir tjáð sig, víðast hvar um landið, að þeir vilji ganga til aðstoðar við bændur á eldgosasvæðinu. Þetta er nokkuð sem þarf að virkja, þetta yrði mikil hvatning fyrir íbúana og styrkur í þeirri baráttu sem þeir eiga í.

Baráttugleðin er mikil og lögregla og björgunarsveitir hafa staðið sig mjög vel í þeim hamförum sem hafa gengið yfir en það sýnir sig vel að til að mynda Sigurður bóndi á Önundarhorni er þegar búinn að leigja tvær gröfur, er að reyna að fá stórvirka bíla, svokallaðar búkollur, og er að fara að moka úr skurðunum. 60 hektarar af túnum, öll túnin á Önundarhorni, eru ónýt og þarf að byggja þau upp. Bóndinn sem hefur þannig versta stöðu er byrjaður að snúa vörn í sókn. Sama má segja til að mynda um Ólaf á Þorvaldseyri sem fór sjálfur í að styrkja varnargarðana sem fóru þegar hlaup gekk yfir þann hluta sveitarinnar.

Það þarf að ganga til verka þannig að allir séu að gera það sem hægt er. Almannavarnir og ríkislögreglustjóri gera það sem þeir geta, þeir sem geta gert aðra þætti betur, eins og til að mynda þeir sem ég nefndi, landgræðslustjóri, vegamálastjóri og a.m.k. sveitarstjóri Rangárþings eystra, eiga að fá tækifæri til þess og umboð til að taka til hendinni og leggja hönd á plóginn. Það gengur þá hraðar og er skilvirkara. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að hver dagur er dýrmætur. Þeir sem hafa verið á svæðinu og séð aðstæður á jörðu sjá svo auðveldlega að það verður að bregðast strax við.

Í raun og veru hefur enn þá orðið ótrúlega lítið tjón af þessu gosi og vonandi er það í rénun. En nokkrar jarðir hafa farið illa og þar þarf að bregðast við. Þar er komið nánast steypulag á sum tún því að þessi létta aska hefur með rigningu orðið að hörðum leir. Hann er ekki þykkur, hann er 10–15 sentímetrar, en það þarf að bregðast við með réttum tækjabúnaði og það þarf að virkja þá aðila sem ég nefndi að vantaði inn í myndina.

Það er þakkarvert að ríkisstjórnin hefur nú tilkynnt að tjónið verði bætt, fjármagn tryggt til Bjargráðasjóðs, en (Forseti hringir.) það þarf að standa vel með fólkinu því að það þarf að byggja upp baráttugleði og bjartsýni á það sem fram undan er. Við höfum öll færi á því að komast út úr þessu á þokkalegan hátt.