138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

endurskoðun AGS og lausn Icesave.

[14:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er klappaður steinninn. Ég hélt kannski að formaður Sjálfstæðisflokksins kæmi hingað til að fagna því (Gripið fram í.) að það tókst með — væri hv. þm. Pétur Blöndal tilbúinn til að vera rólegur? — að það tókst að fá þessa endurskoðun fram, það þurfti að hafa ærið mikið fyrir því. Ég hélt kannski að formaður Sjálfstæðisflokksins gleddist yfir því að ríkisstjórnir annars staðar á Norðurlöndunum hafa lýst því yfir að gjaldeyrislánin séu í framhaldi af annarri endurskoðun til reiðu. Þetta eru mjög ánægjuleg og mikilvæg tíðindi fyrir Ísland. Við erum í allt annarri og vænlegri stöðu nú eftir að hafa náð þessu fram og eiga aðgang að þeim lánum til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann hvað sem framtíðinni líður sem þetta felur í sér. Hér er um mikilsverðan áfanga að ræða sem á að geta haft jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála, aukið líkur á vaxtalækkun, aukið líkur á hagstæðri gengisþróun, haft jákvæð áhrif á lánshæfismat landsins og þar fram eftir götunum.

En það var ekki erindi formanns Sjálfstæðisflokksins hingað upp heldur annað. Hann spyr um orðalag 20. töluliðar viljayfirlýsingarinnar. Það er ekki þannig að tenging Icesave-málsins við fyrirtöku málefna Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi orðið til með þessu orðalagi, nema síður sé, og það á formaður Sjálfstæðisflokksins að vita. Það var neglt inn í fyrstu viljayfirlýsinguna í nóvember 2008 með miklum mun afdráttarlausara orðalagi en hér er á ferðinni. Það er búið að hafa mikið fyrir því að reyna að fjarlægja sig þeirri tengingu sem þá varð til, í tíð fyrri ríkisstjórnar haustið 2008. Hér er um almennara orðalag að ræða, fyrst og fremst viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til að halda áfram og reyna að leysa málin með samkomulagi. Engin fyrirheit eru gefin um neitt sem gengur lengra en það sem samstaða var um að þyrfti að verða samkomulagsgrundvöllur, þ.e. að Ísland ábyrgðist lágmarksfjárhæðina og að við værum tilbúin til viðræðna um þátttöku í sanngjörnum fjármagnskostnaði. (Forseti hringir.) Orðalagið var að lokum unnið í samráði við fulltrúa og samninganefnd Íslands og lokafrágangur þess var borinn undir og samþykktur af formanni samninganefndarinnar, Lee Buchheit. (Gripið fram í: Ekki alveg.)