138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

endurskoðun AGS og lausn Icesave.

[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var mat þeirra lögfræðinga, þar á meðal í samninganefndinni og fleiri sem við ráðfærðum okkur við í þessum efnum, að það væri afar mikilvægt að komast eins langt í burtu frá orðalagi upphaflegu viljayfirlýsingarinnar frá 15. nóvember 2008 sem undirritað var, eins og kunnugt er, m.a. af Davíð Oddssyni og Árna Mathiesen, forvera mínum í fjármálaráðuneytinu. Það var mikið fyrir því haft vegna þess að þar var skrifað upp á þá aðferðafræði að Bretar og Hollendingar væru búnir að greiða út upphæðirnar og þeir byðu upp á forfjármögnun þessara greiðslna. Það vita allir hvaða kjör var um að ræða og voru uppi á borðum á þeim dögum og þeim vikum, sem sagt að Ísland ætti síðan að endurgreiða þetta allt saman með fullum vöxtum frá fyrsta degi á tíu árum, með 6,7% vöxtum. Þetta voru kjörin á þeirri forfjármögnun sem þarna var vísað í og ég vænti þess að formaður (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins sé mér sammála um að ekki sé æskilegt fyrir okkur að vísa mikið í þá fortíð málsins.