138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[15:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður benti á eru lög mannanna verk og lög eiga að endurspegla hvers konar samfélag við viljum byggja upp. Það held ég að hafi komið fram á undanförnum mánuðum frá því að hrunið varð að við hér á Íslandi — ég nefni hér sérstaklega dómstólana — og lögfræðingar sem starfað hafa hér á Íslandi virðast hafa túlkað lög mjög þröngt. Menn horfa mjög stíft á ákveðnar greinar í jafnvel í heilum lagabálki sem var samt hugsaður af Alþingi að væri skoðaður í heild. Og það koma líka upp tilfelli þar sem fólk virðist, eins og við gætum jafnvel verið að tala um hér, sleppa undan því sem við teljum að sé siðferðislegan rétt eða einhverju sem ætti að vera á ábyrgð viðkomandi, vegna þess að lagatextinn er túlkaður mjög þröngt. Ég bíð spennt eftir því að heyra útskýringar þingmannsins og þar með allsherjarnefndar á því hver er ástæðan fyrir því þegar verið er að vega og meta afturvirknina. Að þarna sé í raun sagt að friðhelgi eignarréttarins vegi þyngra fyrir þann sem hugsanlega hefur brotið lög eða hefur gert eitthvað sem við teljum vera rangt, jafnvel ólöglegt, ekki siðferðislega rétt, eða eignarréttur þeirra sem við eigum að vera að gæta að, sem eru þeir sem eiga lögmæta kröfu í þrotabúin. Eins og ég skildi þetta var tilgangur þessara laga að gefa rýmri frest til þess að hægt væri að tryggja að (Forseti hringir.) ekki væri verið að koma (Forseti hringir.) eignum undan sem þrotabúin eiga með þeim gjörningum sem farið var í eftir hrunið. Ég hlakka mikið til þess að heyra svör þingmannsins varðandi þetta.