138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var markmið nefndarinnar og samstaða um það í nefndinni að það var gengið eins langt í þessa átt eins og menn töldu hægt, eins og menn töldu að mundu standast fyrir íslenskum dómstólum. Þeir þingmenn sem komu að þessu máli í allsherjarnefnd voru efnislega ekkert ósammála hv. þm. Eygló Harðardóttur og gengu eins langt í lagasetningunni eða í tillögugerð sinni og talið var fært og talið var að mundi standast fyrir íslenskum dómstólum. Það er þýðingarlaust fyrir okkur að ætla að setja hér í lög atriði sem mikil hætta er á að standist ekki þegar mál eru borin upp við dómstóla. Ef við teljum að það þurfi að ganga lengra eða víkja frá sjónarmiðum um afturvirkni laga, bara svo dæmi sé tekið, og friðhelgi eignarréttarins, þurfum við að krukka í stjórnarskrána og breyta þannig þeim grundvallarreglum sem setja lagasetningu okkar ramma.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á það, af því það er kannski nauðsynlegt að það komi inn í þessa umræðu, að þetta frumvarp felur í sér almenna breytingu á gjaldþrotalögunum. Sú breyting sem hér er að finna á ekki bara við um einhverja útrásarvíkinga eða stórmógúla í viðskiptalífinu, hún á líka við um einstaklinga sem verða gjaldþrota, jafnvel út af húsnæðislánum. Það er líka sjónarmið sem við þurfum að hafa í huga þegar við tökum þessa umræðu.

Þetta er almenn breyting. Hún á ekki bara við um fyrirtæki. Hún á ekki bara við um útrásarvíkinga eða aðra þá sem menn hafa grunsemdir um að reyni í stórum stíl að fara með eignir undan. Hún á við alla sem lenda í gjaldþrotaskiptum.