138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

556. mál
[17:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum. Þessum lögum var ætlað að innleiða tilskipun um samræmingu á lögum aðildarríkja EES um vernd launamanna við aðilaskipti. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við 1. mgr. 3. gr. gildandi laga sem kveður á um yfirfærslu á réttindum og skyldum framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi við aðilaskipti.

Frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er ætlað að mæta athugasemdum varðandi þetta ákvæði. Í ljósi túlkunar Hæstaréttar Íslands á einu ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, þ.e. 1. mgr. 3. gr., í máli Blaðamannafélags Íslands gegn Frétt ehf., nr. 375/2004, hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemd við þetta ákveðna ákvæði sem ætlað er að innleiða 3. gr. fyrrnefndrar tilskipunar. Málið varðar ágreining um greiðslu vangoldinna launa blaðamanns sem starfaði hjá Fréttablaðinu ehf. í kjölfar aðilaskipta á félaginu. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að aðilaskipti hefðu farið fram á félaginu Fréttablaðinu ehf. í skilningi laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, þegar félagið Frétt ehf. tók yfir rekstur Fréttablaðsins ehf. sumarið 2002. Hins vegar taldi dómstóllinn að umrætt ákvæði laganna ætti eingöngu við um réttarstöðu starfsmanna en ekki skuldir, launaskuldir, framseljanda. Því var talið að réttur blaðamannsins til ógreiddra launa sem komu til fyrir aðilaskiptin yrði ekki byggður á lögunum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Engu að síður hafi framsalshafa borið að virða ráðningarsamning blaðamannsins við framseljanda frá kaupsamningsdegi og þar til nýr ráðningarsamningur var gerður.

Eftirlitsstofnun EFTA telur þessa túlkun Hæstaréttar ekki vera í samræmi við dómafordæmi Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins í málum er varða túlkun á 3. gr. tilskipunarinnar. Ráðuneytið er sama sinnis og telur fulla ástæðu til að breyta lögunum að þessu leyti.

Við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi með umræddum lögum var ekki gert ráð fyrir að framseljandi og framsalshafi bæru sameiginlega ábyrgð eins og tilskipunin gerir ráð fyrir að aðildarríkin geti ákveðið, heldur eingöngu að réttindi og skyldur á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands færðust yfir til framsalshafa.

Eftirlitsstofnunin bendir á að þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins útiloki það ekki samkvæmt orðanna hljóðan að greiðsla vangreiddra launa falli undir ákvæðið verði að horfa til þeirrar túlkunar sem Hæstiréttur hefur viðhaft á ákvæðinu í dómum sínum. Í ljósi þess verði ekki talið að ákvæðið feli í sér með fullnægjandi hætti innleiðingu á efni 3. gr. tilskipunarinnar. Því er í frumvarpinu lögð til breyting á þessu ákvæði til samræmis við þann skilning sem við teljum réttari. Breytingin hefur það í för með sér að við aðilaskipti tekur framsalshafi yfir réttindi og skyldur framseljanda, þar með talið vanefndir á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands sem kom til fyrir aðilaskiptin, og tekur breytingin þannig af allan vafa hvað þetta varðar.

Jafnframt er lögð til breyting á öðru ákvæði umræddra laga, 1. mgr. 1. gr., en við þá breytingu sem gerð var á lögunum með lögum frá 2006, um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, virðist sem fallið hafi brott seinni hluti þess ákvæðis. Í ljósi þess að með lögunum frá 2006 var ekki ætlunin að breyta gildissviði laganna sem hér um ræðir er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði aftur breytt til fyrra horfs.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.