138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[21:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði sem er á þingskjali 904 og 517. mál þingsins.

Hinn 6. október 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. (neyðarlögin). Í 5. gr. laganna var lagt til að bætt yrði við nýrri grein, 100. gr. a, í lög um fjármálafyrirtæki um sérstakar ráðstafanir. Þar var kveðið á um heimild Fjármálaeftirlitsins, við mjög knýjandi aðstæður, til að taka yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda fjármálafyrirtækis og taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta og skipa fjármálafyrirtæki skilanefnd.

Á grundvelli framangreindra ákvæða tók Fjármálaeftirlitið ákvarðanir um að skipa skilanefndir í stóru viðskiptabönkunum þremur í október 2008. Í kjölfar þess tók stofnunin ákvörðun um ráðstöfun eigna „gömlu bankanna“ til „nýju bankanna“.

Um miðjan desember 2009 höfðu tekist samningar á milli gömlu bankanna, nýju bankanna og fjármálaráðuneytisins um uppgjör og greiðslur vegna þeirra eigna sem færðar voru frá gömlu bönkunum til nýju bankanna með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins.

Í tveimur tilvikum er um að ræða uppgjör með skuldabréfi sem er með veðtryggingu. Í framkvæmd hefur reynst erfitt að veita fullnægjandi veðtryggingu í samræmi við ákvæði samninganna á grundvelli gildandi laga. Byggjast þau vandkvæði annars vegar á ákvæðum 1. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, þar sem segir að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða kann að eignast. Hins vegar byggist ómöguleikinn á ákvæðum 46. gr. laga um samningsveð sem fjalla um það hvernig veðréttur í almennum kröfum öðlast réttarvernd. Samkvæmt 46. gr. þarf annaðhvort veðsali eða veðhafi að tilkynna skuldara um veðsetninguna til að veðrétturinn öðlist réttarvernd. Í þeim tilvikum sem frumvarpinu er ætlað að ná til væru slíkar tilkynningar nær ómögulegar þar sem tilkynna þyrfti mörg hundruð viðskiptavinum viðkomandi fjármálafyrirtækis með sannanlegum hætti um veðtökuna. Raunhæfir hagsmunir fyrir slíkum tilkynningum eru vandséðir í þeim tilvikum sem hér um ræðir.

Í frumvarpi þessu er því lagt til að sett verði í sérstök lög ákvæði sem heimila fjármálafyrirtækjum að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum og undirliggjandi veðréttindum sem tengjast þeim, í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli neyðarlaganna og að bæta frekari eignum í hið veðsetta safn til að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli og skipta út einstökum eignum samkvæmt samkomulagi við veðhafa. Er lagt til í frumvarpinu að um þessi tilvik verði gerðar ákveðnar undantekningar frá ákvæðum laga um samningsveð en gert er ráð fyrir að um önnur atriði en þau sem sérstaklega er kveðið á um í frumvarpinu gildi lög um samningsveð. Mun breytingin, ef frumvarp þetta hlýtur afgreiðslu, gera viðkomandi fjármálafyrirtækjum það mögulegt að veita gagnaðilum sínum fullnægjandi veðtryggingu í samræmi við ákvæði samninganna á grundvelli gildandi laga.

Hæstv. forseti. Ég legg til að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.